Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Stúlku rænt úr Grasamó

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Stúlku rænt úr grasamó

Það er sagt að hafi búið einu sinni ríkur bóndi í Eyjafirði og er ekki getið um nafn hans; hann átti eina dóttir er Helga hét. Vinnumenn hélt hann tvo og tvær vinnukonur og er ekki getið um nöfn þeirra. Elst nú Helga upp hjá föður sínum þar til hún er komin um tvítugt.

Eitt gott vor lætur bóndi vinnufólk sitt fara í grasaheiði. Þegar Helga heyrir það vill hún fara líka, en föður hennar er ekki um það. Þó lætur ekki Helga af fyrri en hún fær að fara líka. Síðan er það allt flutt í grasaheiðina og fer fólk af bæjum þar í kring með því. Þegar það er búið að liggja nokkrar nætur kemur svo dimm þoka að það sést hvurgi. Segist það nú ætla að halda hópinn í nótt. Helga tekur lítið undir það. Gengur það síðan út og fer að grasa. Helga dregur sig á eftir og kærir sig ekki um að vera með fólkinu. Gengur hún frá því svo hún sér það ekki. Kemur hún þá í dálítinn mó og er hann þá allur krökur í grösum. Hugsar hún nú með sér að hún skuli flýta sér að grasa fullan pokann og fara svo til fólksins. Þegar hún er búin að fylla pokann ætlar hún að flýta sér til fólksins. Þegar hún er að binda upp á sig pokann sér hún hvar kemur ríðandi maður á hvítum hesti. Flýtir hún sér þá á stað, en það kemur allt fyrir eitt því maðurinn er óðar kominn til hennar, tekur af henni pokann og fleygir honum þar, en tekur Helgu upp á hestinn fyrir framan sig og ríður svo á stað. Ríða þau nú lengi. Fer þá maðurinn að tala við Helgu, en hún svarar öngvu. Ríða þau nú lengi þar til þau koma í einn dal. Þar sér hún fáeina bæi. Ríður hann þá lengra eftir dalnum. Koma þau þá að dálitlum bæ. Þegar þau koma á hlaðið standa sex karlmenn úti; heilsar hún öngvum þeirra. Svo er farið með hana inn í baðstofu. Sér hún þar sex kvenmenn og ætlar hún það muni vera konur þeirra. Er hún þar í þrjár vikur og talar ekki orð við nokkurn mann. Líða nú fram stundir. Kemur þessi maður einu sinni á tal við Helgu, sá sami sem tók hana; segir henni að hann ætli að eiga hana. Hún svarar honum öngvu orði.

En það er að segja frá því þegar fólkið saknar Helgu fer [það] að leita að henni. Finnur það grasapokann, en Helgu hvurgi. Svo er faðir hennar látinn vita hvarf dóttur sinnar. Fær hann sér síðan menn að leita og er leitað nokkra daga og finnst Helga hvurgi.

Nú víkur sögunni til Helgu og dalabúanna. Segir hann Helgu að þessir sex karlmenn sem hér séu „eru bræður mínir“ og séu þeir allir búnir að fá sér stúlku nema hann og þess vegna segist hann hafa tekið hana, því hann sé einn ógiftur, og biður hana nú búa sig, því hann ætli að giftast henni á morgun; en hún lætur eins og hún heyri ekki og gegnir öngvu. Kemur hann þá með kistil og fær henni, en hún snertir hann ekki. Fara þá hinar stúlkurnar að klæða hana. Síðan ríða þau á stað og til prestsins fram í dalnum og gefur hann þau saman, en hún svarar ekki neinnri spurningunni sem prestur spyr hana að. Er hún þarna um sumarið og ber ekki neitt til tíðinda. En um haustið fara þeir í göngur; en á meðan þeir eru í göngunum hugsar Helga sér að strjúka og fer á stað eitt kvöld og hleypur allt hvað hún getur. Þegar liðið [er] langt á nóttina fer hún að verða lúin. Kemur hún að stóru jarðfalli, fer þar ofan í, skríður út undir jarðbrúna og liggur þar og er þá kominn dagur. Þegar lítil stund er liðin heyrir hún mannareið og þekkir hún þar dalbúa og eru þeir að tala um það að drepa hana ef þeir fyndu hana; en þessi sem átti hana vildi það ekki. Ríða þeir enn lengra og finna ekki. Þegar þeir koma til baka aftur leita þeir í grófinni þar sem hún var, en sáu hana ekki, nema þessi sem átti hana sá hana, en vildi ekki segja þeim það, því hann vissi að þeir mundu drepa hana ef þeir fyndu hana. Síðan hættu þeir leitinni og fóru heim, en Helga hélt áfram og heim til föður síns og varð hann henni feginn.

En um veturinn kemur maður til bónda og biður að lofa sér að vera. Honum er fylgt inn og fær hann þar góðan greiða. Síðan ætlar vinnukona bónda að taka hann úr vatninu. Aðkomumaður spyr bónda hvurt hann eigi öngva dóttir. Bóndi segir honum það. Aðkomumaður biður að láta hana leysa af sér og er það gjört. Þekkir Helga þá manninn og verður hrædd um hann muni ætla að taka sig aftur. Aðkomumaður segir bónda þá upp alla sögu og segist vera sá sami sem hafi tekið hana úr grasamónum og ætlað að eiga hana og líka frá því þegar bræður sínir vildu drepa hana. En hann sagðist hafa séð hana þar sem hún hefði legið undir jarðbrúnni, en hefði ekki viljað segja til hennar; en nú sagðist hann ætla að biðja hennar. Bóndi kvaðst mundi gefa honum hana ef hún vildi það. Síðan biður hann Helgu og hún játast honum með því móti að hann flytji sig í byggð og búi þar. En um vorið flytur maðurinn sig í byggð, giftist Helgu og býr þar til ellidaga.