Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Stefán bóndasonur hinn sunnlenzki
Stefán bóndasonur hinn sunnlenzki
Það byrjar svo sögu þessa að suðrá landi vóru tveir ungir menn; þeir vóru mestu spjátrungar og þóttust mestu menn.
Einu sinni eitt vor kom þeim það saman að fara norður í land til kaupavinnu um sumarið. Nú búa þeir sig til ferðar og þegar þeir eru ferðbúnir halda þeir á stað. Og nú ríða þeir þar til þeir eru komnir að bæ einum sem stóð næstur undir öræfunum; þar báðu þeir um gistingu og var það gjört. Hjónin sem þar bjuggu vóru vel rík; þau áttu einn son sem þá var sextán ára gamall; hann var stór og efnilegur og hét Steffán. Þegar drengur vissi að menn þessir ætluðu norður í land til kaupavinnu bað hann foreldra sína að lofa sér með þeim. Þau vildu ekki gjöra það, en þegar kaupamenn heyra það að bóndason vill fara með þeim leggja þeir til með honum og segjast skulu sjá um hann að öllu leyti. Þegar hjónin heyra það þá lofa þau því syni sínum að hann megi fara. Nú þykir honum vænt um það og á meðan bóndason er búinn á stað bíða kaupamenn. Nú vandar móðir hans vel allan útbúning á syni sínum og í nesti handa honum sýður hún feitt og stórt sauðarkrof og urðu kaupamenn varir við það. Þegar bóndason er ferðbúinn kveður hann foreldra sína og biðja þau vel fyrir honum. Líka báðu þau seinast orða kaupamenn fyrir son sinn og þeir lofa góðu um það. Svo stíga þeir á bak og ríða á stað.
Nú halda þeir allir þrír á öræfi og þar til að þeir eru búnir að halda fyrsta áfangann. Þar nema þeir staðar, setja niður tjald sitt og svo inn í það og fara að borða nesti sitt nema bóndason fór ekki að hrófla við nesti sínu, því hönum brá nú við svo langt ferðalag að hann var orðinn bæði lúinn og syfjaður og lagði sig því strax út af. Þegar kaupamenn sjá það að drengur fer ekki að borða eins og þeir og ætlar að fara að sofa segja þeir við hann: „Ekki verður mikið úr þér um það þú ert kominn í Norðurland fyrst þú ert nú orðinn strax uppgefinn; og ef þú verður sona duglegur í sumar í kaupavinnunni þá þykir Norðlendingum nokkuð í þig varið og vel máttu fá gott kaup. Nú er þér bezt að rísa á fætur og fara að borða okkur til samlætis feita krofið sem hún móðir þín sauð handa þér áður en þú fórst að heiman.“ Nú gjörir drengur þetta; hann sezt upp og tekur skrínu sína, lýkur upp og fer nú að skoða kjötið og ætlar að fara að borða. Þegar kaupamenn sjá krofið þykir þeim það ekki magurt, langa til að fá sér bita, fara til og taka af dreng krofið og láta hann ekkert hafa nema annan langlegginn. Nú þykir dreng fyrir, leggur sig út af og fer að gráta. En kaupamenn hlæja að honum og háða og borða krof hans í ákafa á meðan.
Þegar þeir eru að enda við borðalög sín og kroppa um beinin þá heyra þeir að eitthvað er úti fyrir tjaldinu og í því kemur mórauður hundur undir tjaldskörina. Þegar kaupamenn sjá hann fara þeir að grýta í hann beinum og berja hann, en hundurinn fer ekki fyrir það í burtu. Þegar drengur sér það rís hann upp og grípur langlegginn og fær hann hundinum, en seppi tekur fljótt í móti leggnum og hleypur í burt. Þá segja kaupamenn við dreng: „Í flestu ertu líðilegur að þú fórst nú að gefa hundinum það eina stykkið sem þú áttir eftir af krofinu, og sona hefðir þú farið með það allt ef þú hefðir mátt ráða, og betur hefði það farið að við hefðum aldrei fengið þér langlegginn.“ En drengur anzar þeim öngvu. Eftir það leggja kaupamenn sig út af með alla kjötfyllina og sofna strax, en drengur vakir og getur ekki sofnað, því hann var að hugsa um raunir sínar hvað sér hefði viljað til að fara með kaupamönnum og óskar nú í huganum að hann sé kominn heim aftur til foreldra sinna.
Og í þessum hans raunaþönkum heyrir hann að það er riðið að tjaldinu og stigið af baki; svo kemur maður undir tjaldskörina og hyggur inn í tjaldið. Drengur varð hræddur, því honum þótti maður þessi ekki fríður því hann var bæði stórskorinn og illilegur. Komumaður talar til drengs með nafni og spyr hann að hvört hann hafi gefið hundinum langlegginn. Drengur segir: „Hér kom áðan mórauður hundur og gaf ég honum langlegg, en hvor þann hund átti veit ég ekki.“ Komumaður segir: „Ég átti hundinn og gjörðir þú það vel að gefa honum; ég þakka þér fyrir hann. Nú vil ég borga þér fyrir hundinn minn og kondu með mér.“ Drengur segir: „Ég þori ekki að fara fyrir þeim sem hér sofa í tjaldinu; þeir eiga að sjá um mig.“ Komumaður segir: „Hafa þeir reynzt þér svo vel að þú megir ekki yfirgefa þá? Og kondu með mér strax.“ Drengur þorir ekki annað en hlýða komumanni og varð líka feginn að skilja við lagsmenn sína. Nú fer drengur út úr tjaldinu og er þá komumaður búinn að sækja hesta hans. Leggja þeir nú á og láta upp föggurnar og svo heldur komumaður á stað og drengur með honum, en kaupamenn sofa eftir í tjaldinu og vita ekki af neinu.
Nú halda þeir félagar áfram og gengur það lengi þar til dreng fer að leiðast og talar karl ekkert við hann. Nú um síðir koma þeir í einn dal; þar sér drengur að stendur einn bær nokkuð stór og í kringum túnið er hár garður og eitt hlið á honum og hurð í. Þegar karl kemur að hliðinu stígur hann af hesti sínum og tekur opið hliðið og svo fara þeir heim á hlaðið og í því kemur út ungur kvenmaður. Karl heilsar þar dóttir sinni og segir við hana: „Farðu nú inn með dreng þennan og gefðu honum að éta, því ég held að honum sé mál á því; búðu svo upp gott rúm handa honum svo hann geti farið að sofa.“ Svo fer karl að láta inn föggur drengs og flytja hestana, en stúlkan tekur á móti dreng og leiðir hann inn með sér og í hús eitt; þar setur hún dreng við borð. Gengur hún þá í burtu og kemur aftur með nógan mat og setur á borðið; svo fer drengur að borða. Í húsinu stóð eitt rúm og það fer stúlkan að búa upp og þegar drengur er búinn að borða þá vísar stúlkan honum á rúmið og þar fer hann að sofa og var það seint um dag.
Nú sefur drengur þar til daginn eftir að karl vekur hann og segir við dreng: „Nú ertu búinn að sofa nóg; farðu nú og klæddu þig og farðu á flakk.“ Í því kemur stúlkan inn til þeirra með nógan mat handa dreng. Þegar hann er búinn að borða þá segir karl við dreng: „Nú skaltu vera hjá mér í sumar og slá fyrir mig; ég ætla að mæla þér út blettinn sem þú átt að slá, og láta dóttir mína raka á eftir þér og þjóna þér að öllu leyti. Ég skal gjalda þér fyri vinnu þína svo þú sért skaðlaus.“ Drengur tekur þessu vel og lofar að vera hjá karli. Eftir það gengur karl í burtu, en drengur kemur út, er þá gott og bjart veður, og í því kemur karl til hans og fær honum nýtt orf og nýjan ljá og segir við dreng: „Með þessu áttu að slá í sumar. Kondu nú með mér; ég ætla að sýna þér blettinn sem þú átt að slá.“ Nú ganga þeir á engjarnar og karl sýnir honum engjablettinn, en dreng þykir hann stór. Karl segir við hann: „Þú átt að vera búinn með hann viku fyrir göngur.“ Nú gengur karl heim, en drengur fer að slá; en ekki þarf stúlkan að raka á eftir honum nema annan hvörn dag. Nú keppist drengur við á hvörjum degi að slá, en hvörnin sem hann ólmast þá sýnist honum að óslegni bletturinn vaxa og það þykir honum undarlegt og svo var það fram að miðju sumri.
En eftir mitt sumar fór hann að minnka meir en hann átti von á og viku fyrri en karl setti upp var drengur búinn. Kemur hann þá til karls og segir honum frá að hann sé búinn með ætlunarverkið. Karl lætur vel yfir því og segir við hann: „Vel hefur þú keppzt við að vera búinn fyrri en ég setti upp með öðrum hjáverkum sem þú hefur haft í sumar. Nú ætli ég að sýna þér kaup þitt; það eru tveir smjörbögglar. Ég held að þú sért ekki sá maður að þú getir látið þá upp á klakk á hesti þínum.“ Svo gengur karl að einni skemmu og drengur með honum; þar fara þeir inn. Þar sér drengur tvo smjörböggla stóra. Þá segir karl við hann: „Taktu nú upp bögglana sinn með hvörri hendi og láttu mig sjá hvað sterkur þú ert.“ Drengur fer að reyna og getur ekki nema gjört þeim grasbít báðum undireins. Þá segir karl: „Þetta grunaði mig að þú mundir enginn maður vera til krafta; hvörnin ætlarðu nú að fara að? Þú getur ekki látið þessa böggla til klakks og ekki tekið þá ofan og ef einhvörjir mæta þér á leiðinni og vilja taka af þér böggla þessa þá getur þú ekki varið þá fyrir þeim.“ Segir hann þá dreng að koma með sér og svo ganga þeir úr skemmunni og inn í bæ og þar inn í eitt hús. Þar lýkur karl upp einni kistu og upp úr henni tekur hann flösku; hún var full með eitthvað. Nú segir karl dreng að súpa á flöskunni; drengur gjörir það og þegar hann er búinn að því spyr karl hann að hvört honum finnist ekki að honum hafi vaxið kraftar við sopa þennan. Drengur segir það vera. Þá segir karl: „Farðu þá og taktu upp bögglana.“ Nú gjörir drengur það og þá getur hann tekið þá upp á mjaðmarhöfuð á sér. „Ekki ertu enn vel sterkur,“ segir karl, „og súptu enn á flöskunni.“ Drengur gjörir það og sýpur nú vel á. Þá segir karl: „Taktu enn upp bögglana.“ Drengur fer og tekur þá upp á móts við höfuð á sér. „Ekki líkar mér enn hvað þú ert sterkur,“ segir karl, „og súptu á í þriðja sinn.“ Nú gjörir drengur það og sýpur á með mesta móti. Enn segir karl honum að taka upp bögglana og það gjörir drengur að hann tekur þá upp og það svo hátt að hann jafnhattar bögglana. Þá segir karl: „Nú ertu sæmilega sterkur og þó þú eigir í höggi við einn eða tvo þá veit ég að þú getur varið þitt fyrir þeim, því bögglar þessir eru tuttugu og fjórir fjórðungar hvör fyrir sig. Nú hefur þú ekki þá hesta sem bera þá; ég skal ljá þér hest undir bögglana. Nú á ég eftir að borga þér langlegginn sem þú gafst hundinum mínum, og kondu með mér.“ Nú ganga þeir að fjárhúsi einu og þar fer karl inn og drengur með honum; þar eru tveir sauðir og þykist drengur aldrei hafa séð aðra eins bæði að stærð og fitu. Karl tekur annan sauðinn og gefur dreng og segir við hann: „Það er fyrir langlegginn, en hinn sauðinn ætli ég að gefa þér og þú skalt fara heim með þá; ég skal ljá þér hundinn að reka þá og mun það duga þér. Þegar þú kemur heim þá skaltu láta sauðina inn í hús og skera þá strax og á meðan þú skerð fyrri sauðinn þá láttu hundinn vera í dyrunum að passa hinn svo þú missir hann ekki. Svo skaltu sleppa hestinum og hundinum og skipta þér ekkert af þeim; þeir munu rata heim til mín. Nú vona ég eftir að þú komir til mín aftur að sumri og verðir hjá mér kaupamaður, því ég vona að þá verði í þér meiri dugur en í vor þá þú komst til mín. Líka veiztu hvörnin þú skilur við dóttir mína. En hvörnin heldur þú,“ segir karl, „að lagsmönnum þínum hafi liðið í sumar?“ Drengur segir: „En vel, því þeir hafa verið kaupamenn í Norðurlandi í sumar og grætt nóg smjör og peninga.“ „Ekki er það,“ segir karl, „því þeir hafa sofið í allt sumar í tjaldi sínu og eru vaknaðir fyrir hálfum mánuði og eru nýkomnir í Norðurland og var þá allur heyskapur úti; og nú eru þeir á leiðinni suður og get ég til að þú munir finna þá og ætli ég að vona það að þú getið varið þitt fyrir þeim ef þeir vilja taka það af þér eins og krofið.“ Nú hætta þeir tali og fara heim.
Eftir þetta er farið að búa dreng til heimferðar. Lætur karl sjóða handa honum nóg kjöt. Og þegar hann er ferðbúinn kveður hann karl og stúlku sína og skildu þau öll með vináttu. Hélt svo drengur á stað með smjör sitt og bar hestur karls það, en mórauði seppi rak sauðina á undan og vóru þægir í rekstri; og líka rataði seppi vel það sem hann átti að fara.
Nú segir ekki frá ferðum drengs fyrri en hann er kominn á réttan ferðamannaveg suður. Þá sér hann tvo menn koma á eftir sér ríðandi og ríða hart, en dreng grunar hvörjir vera munu og heldur hann hægt áfram þar til menn þessir ná honum; þá þekkir drengur að það eru kaupamenn. Þeir heilsa upp á hann með nafni og segja við hann: „Þú hefur nóg smjör; seldu okkur aðra klyfina.“ Drengur heldur að það verði að vera ógjört í þetta sinn. Þá segja kaupamenn hvör við annan: „Við skulum taka af honum klyfjarnar hvað sem hann segir.“ Stökkva þeir af baki og ætla að taka sína klyfina hvör þeirra. Þegar drengur sér það reiðist hann, stekkur af baki og þrífur til þeirra ómjúkt og fleygir þeim frá sér langa leið sínum með hvorri hendi og komu þeir niður á höfuðin og meiddu sig skaðlega. Þá segir drengur við þá: „Þið skuluð ekki fara með mig eins og í sumar þegar þið tókuð af mér krofið, og ef þið sýnið mér nokkurn yfirgang þá skal ég drepa ykkur.“ Kaupamenn gegna öngvu nema standa á fætur það hraðasta og hlaupa til hesta sinna og segja hvör við annan: „Ég held að þetta sé djöfull, en ekki maður.“ Svo stíga þeir á bak og ríða hvað þeir geta og eru þeir svo úr sögunni.
Nú heldur drengur áfram þar til hann kemur heim til foreldra sinna; þau fagna honum vel og þykir að sonur sinn hafi vaxið í kaupavinnunni. Nú fer drengur að eins og karl sagði honum að hann sker strax sauðina og að því búnu lætur hann fylla mórauða hundinn. Svo sleppir hann hestinum og hundinum og hlaupa þeir á burtu og heim til karls. Eftir þetta fara foreldrar drengs að spyrja hann að hvar hann hafi verið um sumarið og þykir kaup hans mikið. Drengur segir þeim eins og var og hælir karli mikið og dóttir hans.
Nú er bóndason heima þar til um vorið að hann fer að búa sig til ferðar og segir foreldrum sínum að hann ætli að finna aftur karl sinn og vera hjá honum í sumar. Þau láta vel yfir því og þegar drengur er ferðbúinn kveður hann foreldra sína og heldur hann svo á stað og er ekki getið um ferð hans fyrri en hann kemur í dalinn og að bæ karls. Bóndason ber að dyrum og kemur karl út. Bóndason heilsar honum vinalega og tekur karl honum vel og segir: „Nú ætlar þú að verða hjá mér kaupamaður í sumar.“ Bóndason játar því. Nú leiðir karl hann inn og til dóttir sinnar. Bóndason sér að hún situr undir barni; hann heilsar henni, en hún tekur því blíðlega; svo sezt bóndason niður hjá henni. Þá segir karl við hann: „Þetta barn sem dóttir mín situr undir eru hjáverkin þín í fyrrasumar, eða kannastu ekki við það?“ Bóndason segir: „Valla mun ég neita því að ég eigi ekki barn þetta.“ „Þá fer þér vel,“ segir karl. Nú fer stúlkan á fætur og gengur í burtu og kemur aftur með mat handa bóndasyni og svo fer hann að borða og þar á eftir að sofa og var það seint um dag.
Um morguninn vaknar bóndason og klæðist fljótt og kemur út og er gott veður. Kemur þá karl til hans og heldur á nýju orfi og nýjum ljá og segir við bóndason: „Með þessu skaltu slá í sumar; ég ætli að mæla þér út blettinn sem þú átt að slá og láta dóttir mína raka á eftir þér. Farðu nú inn og fáðu þér að borða hjá dóttir minni og svo skaltu fara með mér á engjarnar; ég ætli að sýna þér blettinn.“ Svo fer bóndason inn og finnur stúlku sína og svo borðar hann. Að því búnu fer hann með karli á engjar og sýnir karl honum blettinn; bóndasyni þykir hann stór. Þá segir karl við hann: „Með þennan blett áttu að vera búinn eins snemma og í fyrra.“ Bóndason játar því og svo fara þeir heim báðir. Og að tilteknum tíma fer bóndasonur að slá og keppist við á hvörjum degi og bóndadóttir hefur nóg með að raka á eftir honum. Nú fer eins og fyrri að bóndasyni sýnist óslegni bletturinn vaxa allt fram að miðju sumri, þá minnkar hann meir en hann átti von á.
Nú ber svo til að einn morgun snemma kemur karl til bóndasonar áður en hann fór á engjar og segir við hann: „Nú ætli ég að biðja þig að vera heima í dag og binda fyrir mig hey; þú kemur blettinum þínum af fyrir því.“ Bóndason lofar því og svo fer hann að binda og er að því allan daginn til kvölds, og þá sá hann um daginn tuttugu karlmenn alla að heyvinnu með karli, en aldrei oftar hvörki eftir né áður. Svo daginn eftir fór bóndason að slá og var hann búinn hálfum mánuði fyrir göngur. Þá kemur bóndason til karls og segir honum að hann sé búinn með engjablettinn. Þá segir karl: „Vel hefur þú keppzt við að vera búinn hálfum mánuði fyrir göngur, því bletturinn var þriðjungi stærri en í fyrra og ertu vel duglegur maður og fáir þínir jafningjar. Nú ætli ég þér smjör fyrir sumarvinnu þína og nú muntu ekki oftar slá hjá mér. Nú ætli ég að gefa þér dóttir mína; það er bezt að þú njótir hennar. Ég hef átt mörg börn og öll gift nema hún. Er hún yngst af börnum mínum og mér þótt vænst um hana og því vildi ég að hún fengi væna giftingu, en ég vissi af þér vænsta mannsefni í sveitinni og því valdi ég þig handa dóttir minni framar en aðra og farðu nú vel með hana. Ég ætli að fá þér í heimanmund hennar sextíu sauði og sextíu ær og þú færð ekki heldur meira, og þó þú verðir fátækur þarftu ekki að vitja mín framar, en ég vona að þú verðir ekki annars þurfi. Nú skaltu vera hjá mér þar til um göngur og hvíla þig og á meðan dóttir mín býr sig til burtferðar.“ Nú þykir bóndasyni vænt um og þakkar karli fyrir með mörgum fögrum orðum. Svo fer karl til dóttir sinnar og segir henni frá öllu viðtali þeirra bóndasonar og hann sé búinn að gefa honum hana; hún lét vel yfir því. Eftir það fór bóndadóttir að búa sig til burtferðar. Og þegar hún er ferðbúin og mannsefni hennar að öllu leyti þá kemur karl með allt féð og fær bóndasyni og segir við hann: „Ég ætli að ljá þér hundinn að reka fé þetta með þér og hestinn undir smjörið; þeir munu koma til mín aftur.“ Bóndason vill það. Svo kveðja þau karl og bað hann vel fyrir þeim. Ríður svo bóndason á stað og teymir hestana, en stúlkan reiðir barnið; en hundurinn rekur féð og gekk honum það vel.
Og nú segir ekkert frá ferðum þess fyrri en það kom til foreldra bóndasonar. Tóku þau honum vel og spurðu son sinn að hvör þessi stúlka væri, en hann sagði þeim eins og var. Þá tóku hjónin henni vel og barninu. Sezt nú bóndason að með stúlku sína. Þegar menn sáu féð sem bóndason kom með þótti öllum það afbragð bæði að stærð og fitu. Nokkru eftir þetta átti bóndason stúlkuna og fór að búa á móti foreldrum sínum. En eftir nokkur ár gáfu gömlu hjónin frá sér og fóru til sonar síns. Bjó hann svo á allri jörðinni, varð mesti ríkisbóndi á Suðurlandi og vinsæll af öllum og átti fjögur börn með konu sinni og urðu öll væn og lánsöm. Bóndi þessi varð gamall maður mjög og kona hans og dóu hjón þessi með bezta orðstír.
Og er svo á enda saga þessi.