Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Um Eyvind og Höllu

Það heyrði ég[1] mælt þá er ég var prestur í Grunnavík að Eyvindur og Halla bjuggu á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum og Grunnavíkursókn og höfðu allgott bú. Hann fékk gott mannorð, en hún ekki því hún var harðgeðja, en hann þar á móti bljúgur; hann var listamaður, kunni handahlaup svo hann náðist ekki þó eltur væri.

En upptökin til þess að þau struku vóru að Halla lagði saman við ótíndan þjóf – mig minnir heldur Arnes en Abraham – og eftir að þau höfðu drekkt um ís á firðinum dreng nokkrum sem hjá hjónunum var þá struku þau í burtu frá börnum sínum ungum. Halla vildi brenna bæinn, en Eyvindur stóð á móti svo ekki varð framkvæmt það illvirki. Dóttir þeirra Ólöf hljóp til næsta bæjar og sagði frá, svo börnunum varð bjargað. Að nefndri jörðu komust þau aftur úr útlegðinni og þar dóu þau og vóru grafin í mýri nálægt bænum, því leiði þeirra margupphlaðið sá ég á ferð minni þar. En síra Helgi Einarsson var um þessar mundir í Grunnavík[2] hvar hann þjónaði í fimmtán ár. Dætur áttu þau, Ólöfu og Guðrúnu, og einn son sem ég veit ekki hvað hét, en ekkert hefur lifnað út af þessum börnum nema Guðrúnu sem giftist Guðmundi Oliverssyni. Feður hjónanna veit ég ekki hvað hétu.

  1. Séra Torfi Magnússon (1786-1863), prestur í Grunnavík 1822-1841.
  2. Helgi Einarsson (1751-1816) var prestur á Stað í Grunnavík 1780-1795.