Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Vísitazíuferð Skálholtsbiskups
Vísitazíuferð Skálholtsbiskups
Einu sinni var biskup einn frá Skálholti í vísitatsíuferð norður í Múlasýslu. Kom þoka á hann á fjöllum uppi svo hann vissi ekki hvar hann fór; reið hann sjálfur lengi á undan. Kom hann seinast í dalverpi nokkurt. Varð þar bær fyrir honum, snoturlega byggður. Þar drápu þeir að dyrum; kom gamall maður til dyra. Þóttist biskup vita hann væri húsbóndinn, og beiddist gistingar fyrir sig og menn sína. Bóndi svarar nokkuð fálega að þeir mættu spretta af og heimilt væri þeim að ganga til baðstofu. Þeir gjörðu nú svo. Í baðstofu sáu þeir gamla konu og unga stúlku. Torfhnausar tólf voru í baðstofunni og gæruskinn breidd yfir, og var biskupi og sveinum hans vísað þar til sætis og stóð það heima að sætin voru mátulega mörg. En karl og kerling og hin unga stúlka sátu á þverpalli. Allir þögðu enda hafði biskup boðið sveinum sínum að hafa hægt um sig. Eftir litla stund gengu konurnar ofan. Báru þær nýtt kjöt á borð fyrir biskup og menn hans í tréskálum og síðan heita sauðamjólk í öðrum tréskálum og trésleifar fylgdu með. Þetta var um mitt sumar, en þó var mjólkin svo þykk sem sauðaþykkni á hausti. Allt var haglega smíðað, hreint og þokkalegt. Þegar stúlkan bar af borði sagði hún í hálfum hljóðum við biskup að öllu mundi óhætt ef enginn sýndi tortryggni og enginn brygði sér við neitt.
Um kvöldið var biskupi og sveinum hans fylgt til sængur fram í skála. Voru þar tólf rúm upp búin með breiddum gæruskinnum, þófar undir höfðum og feldir undir og ofan á; voru rúm þessi bæði mjúk og hlý og rúmgóð. Svaf biskup í hinu innsta rúminu og sveinar hans út frá honum hver í sínu rúmi. Lagði biskup fyrir þá í kyrrþey að þeir skyldu vera stilltir og ekki bregða sér við neitt. Litlu síðar heyrðu þeir undirgang og mannamál og skömmu seinna kom karl inn með ljós í annari hendi, en kníf í annari. Brá hann ljósinu að andliti hvers eins og otaði að þeim knífnum og eins að biskupi. Síðan gekk hann út og heyrðu þeir hann sagði: „Trúa má þeim, annars hefðu þeir ráðizt á mig einan.“ Morguninn eftir sáu þeir tólf menn hjá karli. Voru þeir miðaldra að sjá og þaðan af yngri, allir liðmannlegir og hver öðrum líkir. Karl var nú miklu kátari en daginn áður. Var fjúkslydda og dimmviðri svo hann bauð biskupi að vera um kyrrt og þekktist hann það.
Um daginn spurði karl biskup að ýmsu og þar á meðal hvenær hann hefði verið á fjölmennustu alþingi. Biskup mælti: „Síðan eru nú meir en fjörutíu ár, var ég þá átján vetra gamall piltur og stóð svo á að af átti að taka systkin tvö úr Miðfirði er átt höfðu barn saman. En þegar þau voru dæmd og lesinn var upp dómurinn þustu margir til að heyra hann. En maðurinn sá færi á að beizla brúnan hest er hann átti, hljóp honum á bak, setti systur sína að baki sér og reið af stað, en varðmenn og margir aðrir gripu líka hesta sína og riðu eftir honum. Eltu þeir hann þrjá daga svo leiti bar stundum milli, yfir hraun, klungur og kletta. Sáu þeir það seinast til að hann hleypti á sund út á vatn mikið og sýndust hraunklettar vera hins vegar. Hvarf hann þar upp undir, en enginn þorði að ráða á eftir og ekki sá fyrir enda vatnsins.“
Daginn eftir fór biskup af stað; fylgdi þá hinn gamli maður biskupi á veg og sagði honum að hann héti Magnús og væri maður sá er hann hefði séð á alþingi og flúið hefði með systur sína. Kvaðst hann hafa staðnæmzt í þessu dalverpi og fundið þar fé fyrir og búið að því; væri hin gamla konan systir sín, en hin unga stúlka og þeir tólf menn börn þeirra. Sagðist hann vera valdur að því að biskup væri kominn á sinn fund því nú mundu þau systkini deyja í vetur og vildi hann biðja biskup að ráðstafa börnum þeirra því annars mundu þau tryllast og verða heiðin þar á fjöllum uppi. Biskup lofaði þessu og lét flytja fjölskylduna til byggða næsta vor á eftir. Sá hann með ýmsu móti fyrir ráði þeirra bræðra og gifti systur þeirra, en lík þeirra systkina voru flutt í Skálholt og jörðuð þar.