Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Arnljótur huldumaður
Arnljótur huldumaður
Það var einu sinni ekkja sem átti sér eina dóttur eftir manninn sinn og bjuggu þær mæðgur tvær saman í einu koti og var þar ekki annað fólk. Móðirin hafði matseldina á hendi og snúningana heima við, en dóttirin hirti fénaðinn sem raunar var ekki mikill.
Einu sinni þegar hún var að smala kom að henni maður stórvaxinn og alskeggjaður. Hún spyr hann að heiti; hann sagðist heita Arnljótur. „Gjörðu svo vel,“ segir hann, „og komdu heim til mín og hjálpaðu konunni minni. Hún liggur á gólfi og getur ekki fætt, en þú skalt hafa gott af því ef þú gerir þetta.“
„Hvað ætli ég hafi gott af því?“ segir hún. „Þú ert ekki mennskur maður og mun vera meira illt en gott hjá þér að hafa, og fer ég hvurgi.“
Hann hryggðist við og fór frá henni, en hún fór heim og sagði móður sinni ekki frá þessu.
Og morguninn eftir fer hún að smala og þá kemur Arnljótur aftur og biður hana innilega að koma með sér og hjálpa konunni og sagði að hún þyrfti ekki að óttast það. „En svo er ástatt,“ segir hann, „að hagur konu minnar getur ekki greiðst nema stúlka af mennsku kyni hjálpi henni.“
Hún lét ekki leiðast til að heldur og fór hann enn jafnnær frá henni.
Þriðja morguninn smalar hún enn og kemur Arnljótur enn til hennar og segir að nú sé farið að draga af konu sinni og ef hún komi nú ekki muni verr fara. En daginn áður hafði hún sagt móður sinni frá því sem fyrir hafði komið, og varð hún æfar reið og sagði: „Ef hann kemur í þriðja sinni og þú fer ekki með honum, þá skal ég reka þig frá mér svo þú skalt ekki koma fyrir mín augu framar,“ og því þorði hún nú ekki annað en fara með Arnljóti.
Hann gekk á undan að einum kletti. Þar sá hún opnar dyr og fóru þau þar inn og komu í dálaglega baðstofu. Þar sér hún konu Arnljóts liggja á gólfinu og hjálpar henni strax. Hún fæddi þríbura.
„Betur hefði farið,“ segir Arnljótur, „ef þú hefðir komið fyrsta morguninn sem ég bað þig, en þó mun ég verða að borga þér yfirsetukaupið,“ segir hann og fékk henni þrjá kostgripi og sagði: „Farga þú aldrei þessum gripum og þegar einhvur falar þá af þér þá segðu: „Ekki vill Arnljótur minn að ég fargi þeim.“ Mundu þetta hvað sem í boði verður.“
Hún fer nú heim til móður sinnar og sýnir henni gripina, en trúði henni þó ekki fyrir að geyma þá og hafði þá með sér morguninn eftir þegar hún fór að smala. Þá kemur til hennar ókenndur maður og falar gripina, en hún sagði: „Ekki vill Arnljótur minn að ég fargi þeim.“
Hann fór svo búinn frá henni, en annan morguninn kemur hann aftur, og fór á sömu leið. Þriðja morguninn gleymdi hún að hafa gripina með sér. Og nú kemur þessi maður til móður hennar og falar gripina og býður henni fyrir þá svo mikið gull að hún réði það af að selja honum þá.
Þegar dóttirin kom heim og frétti þetta varð henni svo illt við að hún sat með gráti allan daginn. Um kvöldið fór hún fram að loka bænum.
Þá kemur enn að henni ókenndur maður og segir: „Illa hefir Arnljótur farið með þig, því þú mátt trúa því að það var hann sem keypti út gripina því hann unni þér ekki að njóta þeirra.“
„Ekki mun hann hafa verið það,“ segir hún.
Þá tekur hann upp gullskjöld stóran eins og keraldsbotn og sagði: „Þetta vil ég gefa þér, því það er gustuk að gleðja þig eftir gripamissirinn.“
Hún þáði það ekki og lokaði sem fastast bænum, en maðurinn fór burt. Hún smalar morguninn eftir og þá kemur Arnljótur til hennar og segir: „Stöðug getur þú verið ef þú værir þar eftir gæfusöm. Ég hefi verið það allt saman sem til ykkar kom, og ég hafði gripina hjá móður þinni og hefi ég verið að reyna þig með þessu,“ segir hann. „Nú má ég gjalda þess að þú gjörðir svo seint bón mína því nú er kona mín dauð, en komdu nú heim með mér og signaðu börnin mín og lestu yfir þeim faðirvor.“
Hún fer með honum og þegar hún kemur inn sér hún að öll börnin liggja í einu rúmi. Hún leggur sig upp í hjá þeim og signaði þau og las faðirvor yfir þeim, en svo tókst óheppilega til að hún lagðist ofan á eitt barnið og kæfði það af ógáti.
Arnljótur varð var við það og sagði: „Satt er það að þú ert ekki gæfusöm, en þó skal ég reyna til enn; taktu nú við gripum þínum, en gjörðu þá bón mína að vera hjá mér hér eftir og vera kona mín.“
„Nei,“ segir hún, „það vil ég vinna til að sjá þessa gripi aldrei oftar að þú biðjir mig ekki um þetta.“
Arnljótur sagði þá: „Ekki verður þér við hjálpað, það fylgir þér svo mikil ógæfa. Ég get ekki við því gjört þó svo fari að enginn vilji hafa þig og þú verðir alstaðar út rekin, en það skaltu af mér hljóta að í lengstu lög skaltu hafa uppeldi af yfirsetudæmi.“
Hún fór nú heim til móður sinnar og sagði henni frá öllu sem farið hafði. Hún átaldi hana mikið fyrir þetta.
Næsta morgun kemur Arnljótur þar og er erindi hans að biðja kerlingar sér til konu. Hún tók því vel og fór með honum. Hún spurði hvurt dóttirin mætti fylgja sér.
Arnljótur sagðist ekki þora það því ógæfa mundi af henni standa. „Hún er velkomin að koma til okkar þegar hún vill,“ segir hann, „en aldrei mun ég lofa henni að vera þar um nótt.“
Þau gáfu henni búið í kotinu eins og það var og fóru svo í burt, og kom kerling aldrei til mennskra manna upp frá því.
Dóttirin kom oft að finna móður sína og þáði góðgjörðir hjá henni, því hún mátti vel þar sem hún var nú komin, en dóttirin eyddi búinu sínu á stuttum tíma og flakkaði svo milli manna og fékk hvurgi inni því enginn vildi hafa hana af því það stóð svo mikið ólán af henni, og alltaf þegar hún kom að einhvurjum bæ sótti hún svo illa að að annaðhvurt dó kýr eða manni varð illt eða eitthvað þvílíkt, en hjá Arnljóti og móður sinni sótti hún ekki illa að og ekki heldur þegar hún kom til að sitja yfir konu, og það heppnaðist henni alltaf vel og lifði hún á því lengst ævi sinnar því allir borguðu henni það vel.
Svo lauk ævi hennar að hún varð úti milli bæja. Og úti er sagan.