Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Djúpir eru Íslands álar
Djúpir eru Íslands álar
Sagt er, að tröllkona nokkur hafi eitt sinn ætlað að vaða til Íslands frá Norvegi. Reyndar hafði hún orðið þess áskynja, að álar væru á leiðinni út hingað, og því er sagt hún hafi sagt við aðra tröllkonu, grannkonu sína, sem vildi letja hana fararinnar: „Djúpir eru Íslands álar, en þó munu þeir væðir vera.“ En þó hafi hún sagt, að áll einn mjór væri í miðju hafi svo djúpur, að þar mundi kollur sinn vökna. Eftir það lagði hún af stað og kom að álnum, sem hana óaði helst við; ætlaði hún þá að ná í skip, sem þar var á siglingu, og styðjast við það yfir álinn. En hún missti skipsins og varð um leið fótaskortur, svo hún steyptist í álinn og drukknaði. Var það lík hennar, sem rak á Rauðasandi hér eitt sinn, og var það svo stórt, að ríðandi maður náði ekki með svipunni af hestbaki upp undir knésbótina kreppta, þar sem hún lá stirðnuð og dauð í fjörunni.