Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Útskúfun úr himnaríki og helvíti
Útskúfun úr himnaríki og helvíti
Þegar Kristur umgekkst hér á jörðunni þá segir sagan að hann hafi beiðzt gistingar hjá karli einum, en karl hafi sagt hann fengi ekki að vera, því það væri ekki öllum svo vel við hann. Síðan eftir himnaför Krists er sagt að Sankti-Pétur hafi beðið sama karl gistingar og karl hafi gjört honum það falt með þeim kostum að hann útvegaði sér þrjá hluti, fyrsta pípu, með hvurri hann gæti blásið öllu til sín er hann vildi, annan hamar, þriðja skjóðu. Pétur postuli var þar um nóttina, en að skilnaði fekk hann karli pípu, hamar og skjóðu. Síðan blæs karl í pípuna og stefnir til sín öllum árunum úr víti. Þeir koma og spyrja hvað hann vilji sér. „Það er nú ekki mikið,“ segir karl. „Segðu oss fljótt hvað þú vilt,“ segja þeir. „Ég ætla að biðja ykkur sýna mér hvað litlir þið getið orðið,“ segir karl. „Hvurnin eigum við að fara að því?“ segja þeir. „Ég hefi hérna skjóðu,“ segir karl, „og hefi ég gaman að vita hvurt þið komizt allir ofan í hana.“ Þeir teljast lengi undan því, en svo fer að lyktum að karl fær unnið að þeir tínast allir ofan í skjóðuna. Síðan tekur karl snæri og bindur fyrir. Nú fer hann með skjóðuna á börðustein sinn, tekur hamarinn og fer að berja skjóðuna. Þeir æja, skrækja og biðja vægðar emjandi og hljóðandi. „Nei, nei,“ segir karl, „þið skuluð nú verða dustaðir, þið hafið til þess unnið vegna ykkar vonzku.“ Síðan heldur hann áfram að berja þar til þeir eru allir orðnir kramdir og murðir, þá sleppir hann þeim út úr skjóðunni, en þeir lötra burt hálfdauðir í illum hug til karls.
Nú kemur loks þar að að karl deyr. Hann kemur að dyrum himnaríkis og klappar upp á. Dyrnar lukust upp; þar kemur út kona og er það María mey. Karl biður hana orðlofs að mega inn ganga. Hún segir hann fái það ekki því hann hafi lifað svo illa á jörðunni. Karl segir henni farist að frávísa sér, sem hafi átt eitt barn og ekki getað feðrað. Síðan gengur hún inn. Karl ber aftur á dyrum. Þar kemur út maður og er það Sankti-Pétur. Karl biður hann lofa sér að fara inn. „Það færðu ekki,“ segir Sankti-Pétur, „því þitt lífsframferði hefur ekki verið gott á jarðríki.“ „Þér ferst að úthýsa mér,“ segir karl, „sem afneitaðir Kristó meistara þínum.“ Síðan gengur Sankti-Pétur inn. Karl ber í þriðja sinn. Þá kemur út Kristur sjálfur. Karl biður hann leyfa sér inngöngu. Kristur segir: „Það fær þú ei, því þú hefur lifað svo illa á jörðunni,“ – en ekki er um getið að karl hafi neinu svarað honum, heldur fór hann til neðri byggða. Þá komu djöflarnir hvur með sinn hamar, lömdu hann og börðu og sögðu hann fengi ekki þar að vera. Þá fór hann aftur til himnabyggða, drap á dyr. Kristur kemur út og segir sem fyr að hann fái ei þar að vera, skellir eftir sér hurðinni, en karl sætir lagi og treður sér inn í gáttina bak við hurðina og þar gistir hann enn.