Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Alexander Magnus
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Alexander Magnus
Alexander Magnus
Svo er sagt að konungur nokkur er Alexander Magnus hét hafi gjört kontrækt (contract) við djöfulinn að ef hann léti sig vinna allan heiminn mætti hann eiga sig. Konungur þessi lagði mikinn hluta heimsins undir sig á tólf árum; kom hann loks til Babylonar; var hann þá orðinn svo drambsamur að hann kallaði sig guðs son og lét tilbiðja sig; ekki drakk hann nema dýrasta vín af gullbikar, og er þá mælt að djöfullinn hafi drepið hann þannig að honum lét sýnast hann drekka vín úr gullskál, en reyndar var það eitur úr hófi af reiðhesti konungs er dauður var og hann hafði viljað láta tilbiðja.