Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Flyðrurnar í Hafnarfjalli
Flyðrurnar í Hafnarfjalli
Einu sinni var bóndi nokkur í Rauðanesi í Borgarhrepp við Borgarfjörð vestanverðan. Hann réri einhverju sinni til fiskjar út á Borgarfjörð á páskadaginn sjálfan því hart var í ári og skorti hann mat. Hann fekk á bátinn tvær flyðrur og einn þorsk. Varð honum aflinn að góðum notum og bar ei neitt til tíðinda.
Árið eftir á páskadaginn reyndi hann hið sama. Þá áraði vel og engi nauðsyn rak hann þá til þess því þá var eigi hart í búi hjá honum. Hann fekk þá enn tvær flyðrur og einn þorsk. En er hann vildi fara heim til sín með aflann hvarf hann og varð að klettum í Hafnarfjalli. Klettar þessir standa í miðjum skriðum í Hafnarfjalli vestanverðu og eru tilsýndar af firðinum mjög líkir flyðrum tveimur og einum þorski, og er önnur flyðran stærri en önnur. Þær eru rétt samhliða. Þorskurinn er austastur og lítið eitt hærra upp í fjallinu en flyðrurnar. Engir klettar eru þar í fjallinu líkir þessum. En efst er klettabelti á fjallinu fyrir ofan allar skriður.