Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Helgir menn innlendir

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Helgir menn innlendir
Þjóðsagnasafn sem kom út í Leipzig 1862-1864.

Aðrir helgir menn en þeir sem kunnir eru úr biblíunni og sögur hafa farið af eru eins og líklegt er helzt innlendir á Íslandi; þó hef ég hvorki heyrt neinar alþýðusögur um Jón biskup helga Ögmundsson né heldur um Þorlák biskup helga, nema þær sem áður er getið; en aftur á móti hafa því fleiri sögur farið af Guðmundi góða Arasyni sem var biskup á Hólum frá 1203 - 1237 en þótt hann hafi aldrei komizt í heilagra manna tölu. Af Guðmundi eru til þrjár bóksögur prentaðar; hin fyrsta drepur á viðureign Guðmundar við óvættina Selkollu; en hinar tvær segja greinilega frá öllum þeim atburðum og er þetta inntak úr:

Ekki kveður minna að atgjörðum Guðmundar biskups þar sem hann vígir vötn og brunna og getur hin elzta Guðmundarsaga þess að vatn það er hann vígir hafi verið heilnæmt, slökkt eld hverju vatni betur og haft marga aðra kynjakrafta, varnað hungri og reimleikum eða óvættagangi, stórár og jafnvel sjór lægðu sig fyrir Guðmundi og vígslum hans, en veiði kom í sumar fyrir bænastað hans og svo þótti Maríu meyju vígslur hans ágætar að hún lýsti yfir að enginn annar prestur kynni að vígja vatn jafn-vel og hann. Miðsaga Guðmundar og hin síðasta (eftir Arngrím ábóta) getur um samræðu hans og Þóris erkibiskups í Þrándheimi um vatnsvígslu Guðmundar, og lýsir það sér af viðtali þeirra að vígslur hans hafa verið misjafnlega álitnar meðan hann lifði, en að erkibiskup sem í fyrstu þótti þær ísjárverðar áleit þær að lyktum ekkert áhorfsmál og leyfði þær. Í þessum fornsögum af Guðmundi er einkum og alloft talað um brunnvatn sem hann vígði og gjörði vatnið fjölnýtt til margra hluta, og hefur minningin um þær vígslur haldizt bezt við til þessa.

Það var hvort tveggja að Guðmundur biskup fór víða um land enda eru Gvendarbrunnar alstaðar á Íslandi sem draga nafn sitt af því að Guðmundur hafi vígt þá; þessir brunnar frjósa aldrei á vetrum og þorna aldrei á sumrum, og vatnið í þeim er talið hollara og betra en allt annað vatn. Fleira er kennt við Guðmund biskup en brunnarnir. Þannig heita Gvendarfoss hjá Tröllatungu og drukknar þar enginn maður. Sama er að segja um Fróðastaðavað í Hvítá í Borgarfirði eftir að biskup vígði það sem hér segir: