Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Jóhann Fást

Maður einn hét Jóhann Fást út í Þýzkalandi; hann gjörði kontrækt við djöfulinn að hann mætti að lokum eiga sig ef hann léti sig hafa alla þá hluti er hann heimtaði af honum; heimtaði Jóhann af djöflinum hinar kostuglegustu kræsingar og ýmsa kjörgripi; einnig lét hann kölska smíða sér höll af gleri að búa í og flytja þangað til sín hina fögrustu konu er var jafnfríð sem Helena hin fagra. Þó gabbaði djöfull Jóhann oft með missýningum; þannig var hin fagra mey reyndar ekki annað en hrossmjöðm. Seinast lokaði Jóhann sig stöðugt inni í glersalnum og saug djöfullinn hann að lyktum út um skráargatið, og fundust þar þrír blóðdropar eftir.