Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Kölski giftist

Einu sinni var ekkja sem bjó í koti með dóttur sinni. Þar var ekki fleira fólk. Þær áttu oftast við bág kjör að búa, en voru þó ánægðar og rólegar því þær vóru ráðvandar og guðhræddar. Kölska lék öfund á því hvað góðar þær voru og reyndi með ýmsu móti til að leiða þær afvega, og gat hann það ekki. Loksins tók hann það til bragðs að hann tók á sig líkingu yngismanns og fór að biðja dótturinnar. Þeim mæðgum leizt vel á manninn og er ekki að orðlengja það að stúlkan var gift honum. Fyrstu nóttina sem þau voru saman var hann svo heitur að hún þoldi ekki að koma nærri honum; aðra nóttina var hann að því skapi kaldur. Hún spurði hann hvað til þess kæmi; hann sagði það væri af kölduveiki. Þær mæðgur sögðust þá mundu gjöra honum kerlaug og mundi það duga ef þær beiddi vel fyrir honum líka. Hann lézt vilja það, en bað þær þó að lofa sér fyrst að ganga út á völl sér til skemmtunar. Þær lofa honum það og fer hann síðan út og gengur lengi þangað til hann hitti ferðamann. Það var skólapiltur frá Skálholti sem fór með bréf frá biskupi austrá Austfirði. Kölski segir við hann: „Gjörðu svo vel, maður, og hjálpaðu mér; ég er vant við kominn.“ Skólapiltur spyr hann að nafni. Hann svarar: „Þú munt kannast við nafn mitt; ég heiti Satan, en svo er ástatt að ég er giftur yngisstúlku sem býr með móður sinni í koti hér skammt frá, en hún er svo guðhrædd að ég get öngvu tauti komið við við hana og vil nú gjarnan vera laus við hana aftur. Þær ætla að gjöra mér kerlaug í dag og mun ég ekki þola það. Vildi ég þú færir í hana fyrir mig og ef þú vilt það þá máttu eiga stúlkuna, og muntu verða lukkumaður.“ Skólapiltur hugsar með sér að þessi stúlka muni víst vera góður kostur, enda nauðsyn að frelsa hana úr þessum vanda. Því svaraði hann: „Þenna kost mun ég taka ef þú tekur við bréfunum og kemur þeim til skila og gjörir ekkert illt af þér.“ „Svo skal vera,“ segir kölski, „en það skaltu vita að ég þykist eiga þunga með stúlkunni. Það mun verða sveinbarn. Þú skalt ala hann upp þangað til hann er tólf vetra. Þá skaltu færa mér hann hingað kvöldið fyrir afmælisdag hans og skilja hann hér eftir.“ Hinn játar því. Þar sem þeir fundust var sandur. Þeir skllja nú. Fer kölski með bréfin og er ekki neitt af hans ferð sagt. Skólapiltur fór heim í kotið og hugsuðu þær mæðgur að allt væri sami maðurinn. Hann lét ekki heldur á neinu bera, fór í laugina og háttaði síðan hjá konunni, og nú þoldi hún að koma við manninn sinn. Það fann hann að kölski hafði sagt það ósatt að hann ætti þunga með konunni, en að ári liðnu fæddi hún þó sveinbarn.

Þau ólu sveininn upp og kenndu honum öll andleg fræði sem þau kunnu og vöndu hann á dyggð og guðrækni eins og enda öll börn sín, því þau áttu fleiri. Sveinninn var líka bæði gáfaður og þægur og að öllu efnilegt og gott barn, og elskuðu þau hann mikið. Þegar drengurinn var tólf ára var það einu sinni að faðir hans kallaði á hann og bað hann að ganga með sér. Það var kvöldið fyrir afmælisdaginn hans. Þeir gengu nú lengi nokkuð þangað til þeir koma á sand. Þá segir faðirinn: „Nú skaltu lesa allt gott sem þú kannt og leggjast síðan niður hér á sandinn og breiða hendurnar út frá þér, svo þú liggir í kross, og þar skaltu svo liggja hreyfingarlaus í alla nótt.“ Drengurinn spurði hvað það ætti að þýða. Hann sagði að hann skyldi fá að vita það seinna. Drengurinn gjörði nú eins og honum var sagt, og þegar hann er lagztur niður tekur faðir hans stórt sax og ristir á sandinn krossmark sitt við hvora hlið sveinsins, eitt við höfuðið og eitt við fæturna, svo stór að þau ná saman allt í kringum drenginn. Síðan segir faðirinn: „Út yfir þenna hring skaltu ekki fara og ekki einu sinni hreyfa þig, hvað sem á gengur, hvort sem reynt verður til að hræða þig eða ginna þig. Vertu alltaf að biðja guð fyrir þér, ekki mun af veita, en ef þú verður ekki kyrr þá skal ég skera þig á háls með saxinu.“ Drengurinn varð dauðhræddur og þorði ekki að bæra sig, en var sífellt að biðja fyri sér, en faðir hans gekk þaðan lítinn spöl og settist niður. Þegar dimmt var orðið sýndist drengnum koma þangað barnahópur. Þau voru fallega búin, héldu á ljósum og léku sér að ýmsu leikfangi sem var mjög blómlegt og girnilegt. Þau þyrptust utan að drengnum og báðu hann að standa upp og koma í leikinn með þeim, sögðu honum væri það óhætt. Hann langaði nú mikið til að fara í hópinn, en þorði það ómögulega fyri föður sínum. Börnin voru lengi að ganga eftir honum, en hann lét sem hann sæi þau ekki og fóru þau loks burt svo búin. Stundu síðar sýnist honum koma foreldrar sínir og fleira fólk sem hann þekkti. Þau kölluðu til hans og báðu hann að koma með sér. Honum datt í hug að þetta mundu vera missýningar og þorði hann ekki að hreyfa sig. Þetta fólk fór í burt um síðir. En löngu síðar kom enn flokkur. Þar var kölski sjálfur og ótal púkar með honum. Þeir létu öllum illum látum og komu með miklum ys og þys þangað sem drengurinn var. Þá varð hann svo hræddur að hann ætlaði að standa upp og hlaupa undan, en í því sýndist honum faðir hans koma með saxið og lagðist hann út af aftur. Ekkert sem að kom komst lengra en að krossunum, og þar var þessi flokkur að ærast og ólmast til dags. Þá hvarf allt á burtu. Nú kemur faðir drengsins og stígur inn yfir krossmarkið og reisir drenginn á fætur og leiðir hann heim. Var hann þó mjög máttfarinn af hræðslu. Síðan sendi bóndi eftir presti sínum og þegar hann var kominn, segir hann alla söguna hvurnig hann hafði eignazt konuna og að kölski þóttist eiga sveininn. Prestur og þau öll lofuðu guð fyrir þessa frelsun. Síðan lætur bóndi hann gefa sig saman við konuna og lifðu þau síðan í velgengni og engu síður guðhrædd en áður. Drengurinn varð líka góður maður og lifði vel og lengi, og vitjaði kölski hans aldrei oftar.