Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Kölski slær tún

Bær heitir á Tindi. Þar bjó einu sinni bóndi sem var mjög áhyggjusamur í búskaparefnum og mesti mauraþegn, en gaf aldrei nokkrum neitt. Eitt sumar um sláttubyrjun var hann áhyggjufullur út af því að hann mundi verða seint búinn með túnið. Um kvöldið áður en hann ætlaði að byrja slátt morguninn eftir sagði hann: „Það vildi ég að einhvur yrði búinn að slá fyri mig túnið þegar ég kem á fætur á morgun um sólaruppkomuna.“ Stundarkorni seinna kemur til hans maður og fer að tala við hann, helzt um slátt og þess háttar. Segist bóndi kvíða fyri því að hann verði svo lengi með túnið. Þá segir hinn: „Viltu semja um það við mig að ég slái túnið þitt í nótt og verði búinn um sólaruppkomu, en þú komir svo í vinnu til mín á morgun?“ Því játar bóndi og fer hinn síðan í burt, en bóndi fer inn og segir konu sinni þetta og lætur vel yfir. Henni fannst ekki til og sagðist vera hrædd um að þetta væri kölski, „Hvað er þá til ráða?“ segir bóndi. „Það,“ segir hún, „að þú heitir því fyrir þig að gefa fátækum ríflegar gjafir ef þú sleppur úr þessum vanda og festa hjartað minna við auðinn eftir en áður. Farðu nú inn og leggðu þig fyrir, en háttaðu ekki svo þú verðir fljótari á fætur á morgun.“ Hann gjörir það. Konan gengur út í túnið að tóft einni. Hún var hjá klettgnípu einni, gömul og gróin. Konan tekur steina úr gnípunni og raðar þeim í kross í tóftina þar sem loðnast var og fór síðan heim aftur. Um sólarlag kom sláttumaðurinn og tók til starfa síns og sló mikið. Nú fór fólk að hátta, en um miðja nótt lítur bóndi út og sýnist honum sinn púki sitja á hvurri þúfu um allt túnið, og eru þeir að reyta af grasið. Nú fer bónda ekki að lítast á, en fer þó inn aftur og liggur til sólaruppkomu. Þá fer hann út og sér þá engan nema þenna eina kaupunaut sinn. Er þá alslegið túnið nema tóftin. Var hann að slá hana utan. Bóndi gengur til hans og segir: „Ekki ertu búinn með túnið; ég er laus allra mála við þig.“ Hinn leit við honum og kvað þetta:

„Grjót er nóg í Gníputóft,
glymur járn í steinum.
Þó túnið sé á Tindi mjótt,
tefur það fyrir einum.“

Hann hvarf síðan, en túnið var óslegið eftir, segja sumir. Bóndi varð mjög feginn og þakkaði guði og þar næst konu sinni frelsi sitt. Hann tók háttaskipti eftir þetta, gaf mikið fátækum og lifði hóglega með rósemi og ánægju alla ævi þaðan í frá.