Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Karl og Dauði

Einu sinni bjó karl nokkur einn sér á eyju; hann var harðla fákunnandi í andlegum efnum svo að hann kunni ekki einu sinni faðirvor og blessunarorðin og eigi vissi hann rétt að signa sig. Eitthvert sinn kemur til hans ókunnur maður mjög alvarlegur í bragði. Karl spyr þenna mann að nafni; hann kveðst heita Dauði og vera kominn að sækja hann, Karl spyr hvert hann ætli að flytja sig. Dauði segir: „Niður til vítis.“ Karli verður hverft við, en spyr þó hvort ekki sé til undanlausnar og biður Dauða vægja sér. Dauði læzt munu gera það í þetta sinn með þeim skildaga að hann læri þegar signinguna, faðirvor og blessunarorðin er hann hafi vanrækt til þessa. Karl játar því fúslega. Kveðst Dauði munu finna hann aftur að þrem vetrum liðnum og vita þá hversu vel hann hafi efnt heit sitt. Eftir það skilja þeir og gleymir karl brátt hverju hann hefir heitið.

Nú líða þrír vetur og þá kemur Dauði enn til karls og er nú sýnu alvarlegri en hið fyrra sinn. Hann kastar orðum á karl og mælti: „Illa hefir þú gert er þú hefir brugðið heit þitt svo mikið sem þér lá við, enda skaltu nú þegar í stað með mér fara til samfélags illra anda.“ Tekur Dauði nú til karls og vill draga hann með sér. Karl biður sér enn vægðar um þrjá vetur og kveðst nú betur skulu geyma að um heit sitt. Dauði er þess alltregur, en lætur þó tilleiðast fyrir þrábeiðni karls og veitir honum frestinn sem hann beiddi. Bað hann nú ei gleyma að nema þau fræði er hann hefði áskilið, ella myndi hann taka þess gjöld þá er þeir fyndist næst. Karl hét góðu um það. Síðan hvarf Dauði á brott, en karli fór sem fyrri að honum leið úr minni að nema það er fyrir hann var lagt; og sem þrír vetur eru á enda þá kemur Dauði til móts við karl og er nú miklu reiðuglegastur og mælti: „Nú er það reynt að þú vilt engi sáttmál halda og verður þér eigi við hjálpað; skal ég nú þegar steypa þér niður til vítis og mun þér ei duga lengur undan að hokra.“ Þrífur nú Dauði til karls og fer hann með hann þar til sem fyrir þeim verður gjá ein eða gloppa dimm og ógurleg; þar nemur Dauði staðar og mælti til karls: „Hér skaltu nú niður fara.“ En svo var Dauði sterkur að hann varð einn ráða þeirra í millum. Karl bað enn um frest og vægð, en Dauði kvað þess nú enga von. Karl mælti þá: „Gefa muntu mér þá fyrst þrjá hluti er ég megi hafa með mér niður til vítis.“ Dauði spyr hverir þeir sé. Karl svarar: „Hinn fyrsti hlutur er belgur sá er eigi verði rifinn; annar er band það er svo sé sterkt að eigi megi slíta; hinn þriðji er barefli vænt er berja megi með hvað sem fyrir er.“ Dauði játti þessu og fær honum þegar þessa þrjá hluti; eftir það steypir hann karli í gjána og hrapar hann þegar með flugaferð niður til vítis. Nú sem hann er þar kominn þá geysist að honum ótölulegur múgur ára og vilja þegar taka til að kvelja hann. Karl biður þá fyrst veita sér eina litla skemmtan, Þeir spyrja með hverju móti hún sé. Karl svarar: „Ég hefi hér einn belg og vil ég biðja yður að þér farið allir í belginn svo ég megi sjá hvort þér fáið þrengt yður svo saman, svo margir sem þér eruð, að þér hafið allir rúm í belgnum; mun yður skömm ein dvöl í þessu.“ Árarnir létu ginnast og hlaupa þegar niður í belginn allir sem einn væri. Var nú karl eigi seinn og rekur bandið fyrir ofan og knýtir að ramlega; því næst tekur hann bareflið og lætur það ganga um belginn ótæpilega svo sem hann hefir orku til. Taka árarnir nú að æpa sárlega með emjan mikilli og veini og biðja karl vægja sér. Hann kveður þess enga von nema þeir vili lofa sér því að setja sig jafnskjótt upp á eyjuna aftur heilan og ómeiddan. Púkarnir heita þessu. Eftir það leysir karl frá belgnum og verða árarnir fegnir lausninni; þeir flytja nú karl upp á eyjuna aftur; en er hann kemur þar er Dauði þar enn á ferð. Karl spyr hvert hann ætli nú. „Upp til himnaríkis,“ segir Dauði, „en hverju sætir það að þú ert hér kominn þaðan sem engi hefir losazt hingað til?“ Karl mælti: „Árarnir vildu mig ekki og fluttu mig því aftur upp í mannheima, en nú vildi ég að þú vildir koma mér í himnaríki með þér, fyrst þú annars átt leið upp þangað.“ Dauði mælti: „Aldrei skaltu þangað koma,“ – og í þeirri svipan brást Dauði í fuglslíki og flaug í loft upp, en um leið og hann þaut af stað þá náði karl um fót honum og hélt sér þar dauðahaldi. Þannig flugu þeir gegnum loftið unz þeir komu að dyrum himnaríkis; þar hvarf Dauði inn að því er karli sýndist, en hann nam staðar á skör nokkurri við dyrnar og sér hann þar nú Sankti-Pétur sitjanda á gulllegum stóli. Karl fleygir sér niður fyrir fætur honum, og með því að hann vill veita honum nokkura auðmjúka þjónustu þá tekur hann til að klóra honum í tánum; lætur hann það ganga nokkra stund unz honum tekur að leiðast sú iðn. Tekur karl það þá til bragðs að hann bítur utan um stóru tána á fæti postulans. Sankti-Pétur kippir þá að sér fætinum svo hart að karl hrökklast á eftir og inn fyrir dyrnar. Verður hann þá hræddur og hniprar sig saman á hurðarbaki og er svo sagt að hann húki þar síðan. – Lýkur svo þessari sögu.