Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Lýsing Maríu
Lýsing Maríu
Lýsing Maríu er á þessa leið: María móðir drottins vors Jesú Krists var að persónunni sem eftir fylgir: Hún var í allan máta réttvísleg og alvarleg; var ei margtölug, heldur talaði fátt og um það eitt sem þörf gjörðist; gat gjarnan hlýtt öðru fólki, lét og gjarna tala við sig. Var meðalhá að vexti, ágæt og velskikkuð, var virðingasöm við hvern mann, djarfmælt og einörð að segja hverjum manni satt án hláturs og annara ósæmilegra athafna. Hún var nokkuð dökkleit í andliti, hafði fagurt hár, einarðlega og skarpa sjón með gulum hring um sjáaldrið, ekki hvikuleygð, dökkvar augnabrýr, kringlótt enni, nokkuð langt nef, rauðar varir, hverjar þá hún talaði hrærðust mátulega, langleit nokkuð í andliti, að meðalhófi langar hendur og fingur; hafði ekki neitt yfirlæti í sínum gangi eður líkamans hegðan eður viðmóti, heldur hélt sig einfaldlega so ekkert lauslætisviðmót sást á henni. Skrifað er hún hafi 63 ár hér á jörðu lifað og andazt úr sótt í húsi Jóhannis guðspjallamanns hvert eð lá nærri fjallinu Zíon, í náveru margra postulanna og hafi grafin verið í Getsemane.