Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Matarvist hjá guði og kölska

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Matarvist hjá guði og kölska

Kerling ein var það er hvergi gat verið svo henni líkaði, enda gat hún hvergi verið svo öðrum kæmi saman við hana. Einu sinni kemur til hennar maður ókenndur og biður kerlingu ráðast til sín vinnuhjú. Hún spyr hann að heiti, en hann segist vera kallaður Satan. Henni verður þá ekki um sel að fastsetja vistarveru sína hjá honum því hún hefði heyrt að af hjúum hans væri vistin ekki vinsæl; líka hafði hún heyrt að miklu væri betri vistin hjá Krist. Spyr hún hann því næst að því er hana fýsti að vita og höfum vér ekki frétt annað af samtali þeirra en hér fylgir:

„Hvernig er híbýlum háttað hjá Krist?“ „Bjart og kalt,“ segir Satan. „Það kemur mér illa,“ segir hún, „því ég er augnslæm og kulvís.“ „En hvernig er híbýlum háttað hjá yður?“ „Dimmt og heitt.“ „Það kemur mér,“ segir hún, „því ég er orðin kulvís.“ „Hvað gjöra hjúin hjá Krist?“ „Syngja, spila og dansa.“ „Illa kemur mér það, því ég er orðin farlama og svo höfuðveik að ég þoli ekki hávaða. En hvað gjöra hjúin yðar?“ „Sita við eld.“ „Það kemur mér vel,“ segir kerling, „því ég er síloppin. Hvað er haft til matar hjá Krist?“ „Ólseigur fiskur og gráði.“ „Illa kemur mér það því ég er orðin brjóstslæm og tannveik. En hvað er til matar hjá yður?“ „Mör og morkin söl.“ En er kerling hafði heyrt þetta réði hún það af að vista sig hjá Satan. Bar hún sig samt illa; hún væri skólaus og þyldi ekki að ganga, svo yrði hún að flytja með sér koppinn sinn. Satan lofaði henni á fæturnar er hún kæmi til sín, en þangað skyldi hún ekki þurfa að ganga því hann héldi hann gæti haldið á einum kerlingarræfli og koppnum. Lagði hann kerlingu á háhest, en hélt á koppnum í hendinni; gekk hann svo lengi. Loks kom hann að einum hóli. Sér kerling hann opinn og var hann fullur af reykjarsvælu og eldi og leizt henni ekki svo vel á. Spurði hún hvort þetta væru híbýli hans. Því játaði hann. Bað hún þá Jesúm að hjálpa sér. Við það brá honum svo illa að hann þeytti kerlingunni og koppnum og sökk þar sem hann var kominn. Valt koppurinn á eftir honum, en kerling lá þarna kjur. Eftir þetta komst kerling aftur til mannabyggða og þókti taka miklum stakkaskiptum til skaplyndis. En alltaf minntist hún koppsins með harmi.