Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Satan vitjar nafns

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Satan vitjar nafns

Um lok 18. aldar bjó sá bóndi í Húnavatnssýslu sem Ketill hét. Meðan kona hans var þunguð dreymdi hana að satan kæmi til sín og beiddi sig að láta barnið sem hún gengi með heita í höfuðið á sér. Af því það er almenn trú að það verði barninu fyrir einhverju góðu ef maður verður við tilmælum þess sem vitjar nafns til konu ætluðu hjónin að láta barnið heita Satan. En presturinn sem skírði barnið vildi ekki skíra það því nafni og skírði því piltinn Natan.

Þegar Natan Ketilssyni óx fiskur um hrygg voru honum margir hlutir vel gefnir því bæði var hann vel hagmæltur og heppinn skottulæknir, en miður þótti hann vandaður til orðs og æðis. Hvorki nennti hann að vinna sér brauð né heldur hafði hann erft auð, þó skorti hann aldrei peninga, og eftir honum er það haft að aldrei mundi sér féfátt verða meðan hann lifði. Af þessu ætluðu menn að hann hefði gert samning við kölska um að veita sér fé nóg, hvernig og til hvers sem hann eyddi því, enda kallar Espólín hann flagara, flysjung, ónytjung og hinn slægasta og bregður honum við lygar, brögð og óvendni.

Einu sinni átti Jón sýslumaður Espólín að halda próf yfir Natan og játaði þessi slungni bragðarefur allt athæfi sitt fyrir sýslumanni þegar þeir töluðust við í einrúmi, en neitaði því aftur öllu saman með einstöku blygðunarleysi þegar sýslumaður sat yfir máli Natans með samdómendum sínum. Prófið var því árangurslítið; en þegar sýslumaður varð að láta Natan lausan úr varðhaldinu er sagt hann hafi tekið í handlegg hans af heljarafli sínu og nálega kramið hann sundur og mælt þessa vísu fram um leið:

„Kvelji þig alls kyns kynja skæð
kvöl og Datan, glatan;
brenni þér sinar blóð og æð,
bölvaður Natan, Satan.“

Upp frá því er sagt að gæfu Natans hafi farið að halla og árið 1828 var þessi nafnarfi djöfulsins myrtur af einum samlagsþjóni sínum og tveimur vinnukonum.