Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Sveitardrengurinn

Einu sinni var biskup í Skálholti; hann átti son og dóttur sem bæði voru efnileg og fríð sýnum. Á næsta bæ við Skálholt var sveitardrengur. Hann kom oft heim í Skálholt til að fá sér mat því hann var svangur stundum. Þess er getið að hann hafi verið vel gáfaður og námgjarn. Svo er sagt að drengur þessi fengi mikla ást á biskupsdóttur og harmaði það mjög að hann mundi ekki geta fengið hana fyrir konu, en bar þó harm sinn í hljóði.

Einu sinni var hann einn á gangi úti á víðavangi og grét. Þá kemur til hans maður og spyr af hverju hann gráti. Drengur vill ekki segja honum það. Komumaður kveðst þá geta sagt honum það; segir hann að hann gráti af því hann geti ekki fengið dóttur biskupsins. Drengur kvað svo vera mundi. „Viltu þá,“ segir komumaður, „að ég hjálpi þér til að ná í dóttur biskups með þeim skilmála að þú verðir minn maður?“ Að þessu vill drengurinn ganga. Ráðleggur þá komumaður að hann skuli koma sér í fjósið í Skálholti og skuli hann þá styrkja hann, en að tuttugu árum liðnum segist hann vilja fá hann til sín.

Nú skilja þeir og verður sveitardrengur fjósamaður í Skálholti eftir þetta. Um þessar mundir voru skólapiltar í Skálholti. Þegar þeir voru yfirheyrðir þá hlýddi fjósadrengur oft á lestur þeirra og andsvör og mundi svo mikið af því að undrum þótti gegna. Þeim kom einkar vel ásamt syni biskups og fjósadreng, og fyrir bænastað biskupssonar við föður hans varð það að biskup lét kenna fjósadreng skólalærdóm. Gekk honum vel í skóla og síðan fór hann utan á háskóla erlendis og varð þar námsmaður mikill. Eftir það fór hann í Skálholt þegar hann kom frá útlöndum og varð biskupi hjálpsamur í ýmsum greinum. Kom svo að hann bað biskupsdóttur og fékk hennar, en var nú í Skálholti fyrst um sinn.

Það er mælt að þessi maður biskupsdóttur fari nú að hugsa um hverju hann hafi lofað manninum um árið og sem hann grunar nú að hafi verið kölski; og olli skilmáli sá, er þeir gjörðu, honum þunglyndis. Mörgum sýndist hann vera þunglyndur, en enginn veit af hverju það er. Þegar ekki eru nema fá ár eftir af tímanum sem ákveðinn var að hann ætti að fara til mannsins þá leggst hann veikur. Kona hans gengur á hann með hvað að honum gangi, en hann vill ekki segja henni það fyrr en eftir langa nauð. Fá þau nú bæði þungsinni af þessu.

Líður nú að þeim tíma sem hann væntir að kölski muni sækja sig og eru fáir dagar eftir. Fer þá kona hans til biskupsins og segir honum frá hvernig ástatt sé. Verður biskupi mikið um þetta. Þó gefur hann tengdasyni sínum það ráð að þann dag sem hann voni eftir kölska skuli hann fara fyrir altarið í kirkjunni, færa sig í skrúðann og halda á kaleiknum fullum með víni. Síðan býr biskup til þrjá hringi umhverfis altarið. Biskup segir honum að hvaða menn eða mannsmyndir sem beri fyrir hann í kirkjunni skuli hann engum gegna og bjóða öllum að súpa á kaleiknum.

Nú kemur dagurinn sem maður biskupsdóttur vonast eftir kölska; þá gengur hann í kirkju og fer eins að og biskup hafði ráðlagt honum, fer í skrúðann og heldur á kaleiknum með víninu. Þegar lítil stund er liðin kemur sonur biskups í kirkjuna og biður hann að koma til sín, en tengdasonur biskups segist skuli gjöra það ef hann súpi á kaleiknum. Það segist hann ekki geta. Síðan kemur biskup og biður hann koma til sín. „Ef þú sýpur á kaleiknum skal ég koma,“ segir tengdasonur biskups. En hann neitar því. Þar næst kemur kona hans í kirkjuna og biður hann mjög innilega að koma til sín. „Það skal ég gjöra,“ segir tengdasonur biskups, „ef þú kemur og bergir af kaleiknum.“ En hún færðist undan því. Nú kemur kölski sjálfur og segir að hann skuli nú koma til sín því nú sé tíminn kominn. „Það skal ég gjöra,“ segir tengdasonur biskups, „ef þú kemur og bergir af þessum kaleik.“ „Það get ég ekki,“ segir kölski. „Ég mana þig nú að koma,“ segir tengdasonur biskups, „og ef þú nú ekki kemur og sýpur af kaleiknum þá skaltu aldrei hafa mig, hvorki í þessu né öðru lífi.“ Nú herðir kölski sig, fer innar eftir kirkjunni og stekkur yfir yzta hringinn, en treystist ekki að fara lengra og hrekkur fram aftur. Tengdasonur biskups lætur þá kölska lofa því að vitja sín aldrei meir og við það fer kölski úr kirkjunni. Þá kemur biskup í kirkjuna og bergir af kaleiknum. Síðan ganga þeir úr kirkjunni og finnur tengdasonur biskups konu sína og verður nú fagnaðarfundur með þeim. Unnu þau síðan hvort öðru hugástum. Og lýkur svo sögu þessari.