Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Um þá gömlu siði á Íslandi

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Um þá gömlu siði á Íslandi

Óttusöngur var kallað það sem fyrst var sungið á morgna, en prím það sem sungið var fyrir prédikun, en tertía það sem sungið var í messunni og nóna það sem sungið var eftir allt embættið, og var þetta kallað þriggjalestrahald; voru þrír Davíðssálmar í hverjum parti. Bænadagar voru þá engvir haldnir utan litanía og sjö Davíðssálmar á skírdagskveld og á föstudagskveldið langa, aldrei endrarnær nema stundum í gangdagavikunni.

Á gangdaginn eina var haft það embætti sem aldrei var haft endrarnær; það var á miðvikudaginn næstan fyrir uppstigningardag. Þá var gengið kringum túngarða, fyrst frá kirkju í þá átt sem miðmorgunsátt er, svo í kringum náttmálastað, þaðan réttlínis til kirkju aftur; var borið vígt vatn undan og uppihaldsstika. Á öngum var prestur þá messuklæðum utan litlar tölur á hálsi og bar handbók sína. Stóð sinn kross í hvorri átt á túngarði, í miðsmorguns-, dagmála-, hádegis-, miðmunda-, nóns-, miðaftans- og náttmálastað. Ekki var þá sungið nema prestur las sjálfur. Allt fólkið gekk þar á eftir, og þetta var gjört á hverju byggðu bóli þó prestur væri ekki því hann bauð fólkinu svo að gjöra áður á næstliðnum sunnudegi og skyldi það lesa sín fræði og bænir sem það kynni og befala sig guði.

Aldrei gekk fólk til altaris nema einu sinni ári utan í dauðstíð. Tók það til eftir miðföstu eftir fólksfjölda og gekk til altaris alla daga í efstuviku utan á föstudaginn langa svo allir höfðu til altaris gengið á páskum þeir í sókninni voru. Vatn var vígt hvern og einn sunnudag, en ekki á öðrum helgum dögum, og bar fólkið heim frá kirkjunni hvern sunnudag það vígða vatn úr vatnspottinum í könnum, staupum, flöskum, hornum. Hver mátti hafa þar af sem vildi, því vatnspotturinn var settur fyrir framan kórsdyr svo hver mátti ganga þar að. Stökktu þeir þessu vatni um hús sín þá heim komu.