Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Vígslur Guðmundar í Grímsey

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Vígslur Guðmundar í Grímsey

Þegar Guðmundur góði Hólabiskup flúði fyrir Sturlungum til Grímseyjar lenti hann í Stertu. Vígði hann þá kirkjuna og brunninn á Miðgörðum, brunninn Brynhildi og öll eyjarbjörgin nema Eyjarfótinn fyrir utan Köldugjá, hann var eftir óvígður[1] þegar Sturlungar komu. Eitt sig á björgunum heitir enn Gvendarbrunnssig. Enginn brunnur er þar nú, heldur aðeins lítilfjörleg vætuvera. Á leiðinni í land lenti Guðmundur biskup á Kjálkanesi, það er hér um hálfa mílu fyrir innan Gjögratá, austan til við Eyjafjörð. Söng Guðmundur þar messu á steini þeim sem síðan er kallaður Kirkjusteinn. Steinn sá er fyrir skömmu hruninn í sjó. Þeir sem biskup eltu fórust, fyrir víst sumir, á miðri Flateyjarleið til lands. Heita þar síðan Sturlungaboðar.

  1. Það mun vera nokkuð óvíst hvað af björgunum óvígt var eftir. Þó ætla ég það réttast sem hér er sagt. Í Grímseyjarlýsing (§ 29) mun vera misskrifað það gagnstæða. — J. N. — [Hdr.]