Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Víkivaki í Hrunakirkju
Víkivaki í Hrunakirkju
Fram á miðja 17. öld vóru haldnir leikir sem kallaðir voru víkivakar, en hvornig þeim var háttað hef ég eigi nákvæmlega komizt að og flest kvæði sem þar voru kveðin eru úr minni liðin, og elztu menn segja að ömmur sínar hafi kunnað þau reiprennandi, en þeir hafi eigi numið. Þá höfðu menn komið saman á vissum bæ og stigið hringdans í skála, og kvæði kveðin sem allir höfðu numið sem að dansi gengu.
Eitt sinn var haldinn víkivaki í Hrunakirkju í Ytrahrepp á aðfaranótt jóladags. Létu menn þar illa og höfðu í frammi ýmsa ósiðu. En er var um miðnæturskeið kom maður út í Hruna og sá hann rauðskeggjaðan eineygðan mann illilegan mjög í gráum kufli standa við kirkjudyrnar og halda annari hendi í hring þann er var í kirkjuhurðinni, og kvað maðurinn vísu þessa:
- Held ég mér í hurðarhring
- hvor sem það vill lasta.
- Nú hafa kappar kveðið í kring.
- Kemur til minna kasta.
Og er hann hafði vísuna kveðið sökk kirkjan með öllu því er í henni var, en svart flag var að morgni þar kirkjan hafði áður staðið. Þennan mann sögðu menn verið hafa kölska.