Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Valtýr á grænni treyju

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Valtýr á grænni treyju

Þegar Jón Arnórsson var sýslumaður í Múlasýslu og búandi á Egilsstöðum á Völlum varð sá atburður að vinnumaður Péturs sýslumanns Þorsteinssonar er þá bjó á Ketilsstöðum á Völlum[1] var sendur með silfur til smíða suður í Reykjavík, bæði peninga og brotasilfur, því þá var ekki smíðað silfur í Múlasýslu.

En þegar maðurinn kom að sunnan aftur fannst hann næstum dauður milli Sauðhaga og Vallaness, og er þar þó fjarska langt bæja á milli. Fundu hann tveir smalar og var hann þá stunginn átján sárum, en þó lítið eitt viðmælandi. Þeir spurðu hver honum hefði veitt slíka áverka, en hann nefndi: „Valtýr á grænni treyju.“ Gat hann svo ekki meira sagt og hné dauður niður. Varð hann því ekki prófaður meira, en búið var að ræna hann öllu silfri og skjölum. Hafði hann þó mikið meðferðis af hvortveggju, því margir ríkir menn sendu með honum silfur til að smíða úr.

Nú vissu menn ekki af neinum sem Valtýrs nafn bar nema bóndanum á Eyjólfsstöðum og var hann hinn mesti sómamaður, reyndur að dyggð og ráðvendni og af öllum virtur og elskaður. Bóndi þessi átti fjörutíu hundruð í fasteign og að því skapi af lausafé. Hann gekk á grænni treyju og er í munnmælum að það hafi verið einkennisbúningur þeirra sem áttu fjörutíu hundruð í jörðu og þar yfir. – Var hann nú tekinn til rannsóknar af áðurgreindum Jóni sýslumanni á Egilsstöðum og harðlega ásakaður fyrir að hafa orðið manni þessum að bana. En Valtýr forsvaraði sig með skynsamlegum orðum og skírskotaði til síns fyrra lífernis, sór sig og sárt við lagði að hann væri saklaus af mannsmorði þessu, en sumir sem höfðu öfund á honum fyrir það hvað ríkur hann var og vinsæll báru sakir á hann og var hann því grimmilega og meðaumkvunarlaust píndur til sagna. En hann vitnaði til guðs að hann væri saklaus. Var honum þá hótað dauða og kom það fyrir sama. Beið hann rólegur þess sem verða vildi og vonaði að sakleysi sitt mundi opinberast. – Var hann svo dæmdur til dauða af Jóni sýslumanni Arnórssyni og hljóðar dauðadómurinn þannig:

„Dæmdur í dag sjálfseignarbóndinn Valtýr á grænni treyju, búandi á Eyjólfsstöðum, fyrir hryllilegasta mannsmorð samt stuld á skjölum, pappírum, peningum og silfri. Voru það hins deyjandi manns seinustu orð að vitni tveggja smalamanna sem fundu hann dauðvona að Valtýr á grænni treyju hefði framið allt þetta. Því dæmist sjálfseignarbóndinn nefndur Valtýr á Eyjólfsstöðum á Völlum til hengingar á gálgaás, sex álna löngu rauðviðistré, grjót borið á annan enda þess í þrjátíu manna viðurvist, fyrir sitt óguðlega mannsmorð og stórþjófnað sem hann þó aldrei meðgengið hefur, en segir sig alltaf saklausan af.

Jón Arnórsson.“

Eftir þetta var farið með Valtýr upp yfir Egilsstaðablá sem kölluð er. Var þá blíðveður og sólskin og logn, en þegar komið var með Valtýr að gálganum mælti hann: „Það mega allir heyra er samþykkja mitt líflát að ég er saklaus maður, ranglega til dauða dæmdur af óréttvísum dómara er ekki getur forsvarað verk sitt fyrir guðs hátignar hásæti sem við munum báðir koma fram fyrir, annar fyrr, en annar seinna, og mun okkar uppskera þá mjög ólík verða. Nú sjáið þér með yðar eigin augum dimmsvartan skýflóka upp renna við hafsbrún. Hann mun geta sýnt ykkur og sannað sakleysi mitt og mín grimmilega hefna.“ „Aktið ekki orðaskvaldur þetta,“ sögðu böðlarnir, en sýslumaður skipaði þeim að framkvæma verk sitt. „Guð geymi mig, en fyrirgefi ykkur,“ mælti Valtýr. Síðan var hann hengdur og að því búnu dysjaður hjá stórri kletthellu sem enn í dag sést. En það var eins og hrollur væri í öllum eftir verk þetta.

Það var um hausttíma að verk þetta var unnið og tók nú að gjöra mjalldrífu og hinn mesta snjómokstur sem hélt stöðugt áfram daga og nætur í níu vikur. Var þá mæld dýptin á snjónum á sléttlendi í Vallanesi og var hún níu álnir, en fimmtán álnir þar sem barfenni var. Sagði svo Guttormur prófastur Pálsson er þar bjó seinna (í Vallanesi), mjög fróður maður, að menn hefðu aldrei vitað jafnmikinn snjó í Múlasýslu allt frá landnámstíð. Þótti öllum sem spá Valtýrs mundi fram komin og að hann mundi hafa verið saklaus deyddur.

Sagt er að fjárdauði hafi þá orðið svo mikill í Fljótsdalshéraði að þar hafi ekki lifað eftir nema átta ær. Stórgripafellir varð þar og mjög mikill og því varð þar hið megnasta hallæri svo menn dóu af harðrétti. Hefur vetur þessi síðan verið kallaður Valtýrsvetur.

Um vorið lét Jón sýslumaður grafa upp bein Valtýrs og jarða í Vallaneskirkjugarði að kristnum sið, nema hönd hans hin hægri var tekin og hengd fyrir innan bæjarþilið á Egilsstöðum, og þar hékk hún í þrettán ár og urðu menn einskis vísari á því tímabili hver valdur var að framanskráðu illvirki.

En um vor þess fjórtánda árs eftir að það var unnið, bar svo til að þá er sýslumaður var að þinga var honum sagt að maður ókunnur vildi finna hann, og væri hann bæði stór og illilegur. Gekk sýslumaður þá út og heilsaði hinn ókunni maður honum þá kurteislega og fékk honum bréf þegjandi. Sýslumaður tók við því og spyr mann þenna að heiti, en hann kvaðst Valtýr heita. „Hvaðan ertu?“ spurði sýslumaður. „Langt sunnan af landi,“ svaraði hinn. „Ertu hér ókunnur?“ sagði sýslumaður, en Valtýr kvaðst þar aldrei fyrr komið hafa. Sýslumaður bað hann bíða þar til úti væri þingið og sagðist þá skyldi fylgja honum á leið.

Svo gekk Valtýr inn á undan sýslumanni, en um leið og hann gekk undir áðurnefnda hönd, sem var orðin hörð og uppvisin, þá duttu þrír blóðdropar úr henni fagurrauðir ofan í höfuð Valtýrs og dreifðust út um hár hans. Sýslumanni brá mjög við þetta og ætlaði að líða í ómegin, en spurði síðan Valtýr hvernig því hagaði að blóð saklauss manns hrópaði hefnd yfir honum, og bað allan þingheiminn skoða jarteikn þetta, en allir lofuðu guð fyrir það.

Síðan var Valtýr píndur til sagna, en hann bölvaði og formælti, bað fjandann styrkja málefni sitt, heitaði að ganga aftur og drepa Jón sýslumann. Um síðir meðgekk hann þó að hann hefði drepið mann, en sér hefði gengið verst að ná af honum silfrinu, því hefði hann haldið þangað til hann var búinn að stinga hann 18 sárum. Bréfin sem hann hefði verið með væri fyrir sunnan. Margar jarðir kvaðst hann hafa keypt fyrir silfrið, vera orðinn stórríkur, ganga hversdagslega á grænni treyju, aldrei gefið fátækum neitt, en alstaðar stolið því er hann hefði til náð. – Eftir að hann myrti mann þenna sagðist hann hafa lagzt á fjallveg þann sem Hjálpleysa heitir, stolizt þaðan á bæi að ná sér mat þangað til hann hefði farið enga mannavegi heim til sín vestur í Barðastrandasýslu. En hann vildi ráðleggja hverjum einum sem lífi vildi halda að fara ekki Hjálpleysu.

Nú var Valtýr dæmdur þeim sama dómi og nafni hans áður, nefnilega að hengjast á sama gálgaás. Var nú farið með hann til aftökustaðarins og heitaðist hann þá við alla sem að drápi hans voru. Örðugt gekk að festa Valtýr upp, því varla gátu þeir borið svo ramlega grjót á annan enda gálgans að Valtýr vægi hann ekki upp.

Ekki var hann tekinn úr snörunni fyrr en hann var orðinn stirðnaður. Var hann þá svo hræðilegur að fáir treystust til að urða hræ hans.

Mjög þótti reimt á leiði hans nokkra hríð og þótti eldur loga þar um nætur. Eitt sinn var það að maður frá Egilsstöðum ók heim gálgatré Valtýrs og vildi brenna því og hjó nokkuð niður af því til eldkveikju, en um nóttina var grimmilega riðið húsum og barðar utan þekjur svo brakaði í hverju tré, en maðurinn var snúinn úr liði á báðum höndum og fótum og varð svo aldrei með heilli sinnu upp frá því. Síðan var gálgatré þetta flutt aftur á sinn stað eður þangað sem það var áður og þar er það enn í dag.

Hafi menn sofnað á leiði Valtýrs hefur þá dreymt mjög ónotanlega og það ekki alls fyrir löngu.

Jafnan eru bein Valtýrs ofanjarðar, því þótt þau séu urðuð tollir ekki ofan á þeim til lengdar og má enn sjá margt af þeim. Þau eru öll mjög stórvaxin. Lærleggir hans tóku meðalmanni í mitt læri þegar hann var átján ára; mældi hann það fyrir fáum árum, og voru lærleggir þá uppvisnir og hvítir.

  1. Jón Arnórsson (1734-1792) var (aðstoðar)sýslumaður í Suður-Múlasýslu 1769-78. Pétur Þorsteinsson (1720-1795) var sýslumaður í Norður-Múlasýslu 1751-86.