Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Verði sem þú segir

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Verði sem þú segir“

Fátækur maður kom til konu sem var að kynda eld undir stórum potti. Konan hélt að maður[inn] mundi biðja sig ölmusu og tók til að kveina yfir hungri og að hún vissi ekki með hvorju hún gæti nært sig og sagðist vera að sjóða horn og slær til að naga. Maðurinn fór burt og sagði: „Verði sem þú segir!“ En þá konan fór að færa upp úr pottinum var það horn og slær er hún átti von á keti.

Þá kom maðurinn til annarar konu. Hún var léttlynd og alúðleg í orðum og viðmóti. Hún var að seyða horn og bein sér til matar. Maðurinn spurði hvað hún væri að elda. Hún segir það sé huppar og hálfrófur. „Verði sem þú segir!“ sagði maðurinn. Og svo varð beina- og hornabruðningurinn að bezta keti.