Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Helgisögur/Vermaðurinn
Vermaðurinn
Einu sinni var drengur eður unglingsmaður í veri á Suðurlandi. Skipshöfn þeirri sem hann var með þókti hann draga lítið því að hann fékk aldrei kvika skepnu á færi sitt. Kom þeim því saman um að hann skyldi engan hlut fá, heldur aðeins það sem hann drægi. Gjörðu þeir gys að honum í hverjum róðri og sögðu að hann myndi þurfa að kaupa sér hesta til að flytja heim afla sinn á og svo framvegis. Strákurinn lét það ekkert á sig fá, heldur réri með þeim eftir sem áður. Seinasta daginn sem róið var gekk stráknum ekki betur en vant var; dró hann einlægt dauðan sjó, en félagar hans fengu töluverðan fisk. Samt keipaði hann einlægt og kvað fyrir munni sér:
- „Ég hef róið í allan vetur,
- einhverntíma gengur betur;
- sendu mér nú, sankti Pétur,
- solítinn þyrskling ef þú getur.“
Gekk svo um daginn að strákur fékk ekkert kóð. En rétt áður en þeir fóru að halda til lands varð hann var og dró þorsk einn stóran, en ákaflega horaðan. Þegar félagar hans sáu það hlógu þeir að honum og sögðu að það hefði alténd legið að að hann fengi þó einhverja kvika skepnu. Strákurinn lét vel yfir afla sínum og þegar í land kom slægði hann fiskinn og fann hann þá í kútmaganum stóran leðurpung fullan af peningum. Félögum hans fór þá ekki að lítast á og vildu þá láta hann hafa hlut af fiskinum, en vildu aftur á móti fá hlut úr peningunum. En strákur bað þá vel lifa og labbaði heim með peninga sína. Varð hann ríkis- og lánsmaður alla ævi, reisti bú á Norðurlandi og varð mjög gamall.