Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Úr Allrahanda Jóns Norðmanns

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Úr Allrahanda Jóns Norðmanns

Óskir. Það heyrði ég eitt í ungdæmi mínu að maður fengi ósk sína ef maður gæti gengið þrjá hringa í kringum sofandi kind.

Brunnaviti. Í nr. 137 er þess getið að allt vatn verði á nýársnótt snöggvast að víni. Að sitja yfir þessu heitir „að sitja á brunnavita“. Maður einn sat alla nóttina við lækjarbunu og sökkti alltaf upp í fötu og smakkaði unz vín kom upp í fötunni; þá hélt hann heim með vínið. Ekki er þess getið að við brunnavitann sé nein víti að varast. Um þetta hefi ég heyrt bæði í Grímsey og í Fljótum.

Hrafnsfjöður. Það heyrði ég í ungdæmi mínu að ef börn drykkju með pípu úr hrafnsfjöður, þá yrðu þau þjófgefin (eins og hann krummi).

Sumarpáskar. Það sagði amma mín mér að þegar sumarpáskar væru, þá sæist sólin dansa á páskadagsmorguninn. Viðlíkt hefi ég síðan heyrt víðar.