Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Almennar kreddur um veðráttufar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Almennar kreddur um veðráttufar

Köttur spáir hláku (góðu veðri) ef hann þvær sér aftur fyrir hægra eyrað á vetrardag.

Ef köttur teygir sig svo klærnar standi mjög fram af framlöppunum veit það á hvassviðri (er það kallað að kötturinn hvessi klærnar eða að hann taki í klærnar ef hann teygir sig).

Ef gamlir kettir leika sér á vetrum veit það á illviðri.

Spá skal áttum á vetrardag eftir því í hverja átt kötturinn klórar tré.

Trú þú aldrei vetrarþoku þó ekki sé nema ein nótt til sumars.

Það veit á harðan vetur ef hestar liggja í haga fyrir miðjan vetur.

Þegar mikið sést dökkt í jökulhúfunni á Herðubreið veit á vondan vetur og gagnstætt.

Þegar fönnina tekur alveg upp úr Sellandafjalli (við Mývatn) er von á fellivetri.

Eins og vetrarkvíðinn er hár á haustin eins djúpur verður snjór á veturinn.

Það veit á góðan vetur ef þrisvar snjóar á fjöll fyrir lok ágústmánaðar, þeir snjóar heita „vetrarkálfar“. Aðrir segja að ef snjói á fjöll í hverjum sumarmánuði verði góður vetur.

Það þykir vita á góðan vetur ef áin Blanda ryður sig þrisvar fyrir miðjan vetur.

Ef ár ryðja sig í gaddfrosti á vetrardag er von á lini.

Það þykir góðsviti ef vötn og ár leggur á haustum án þess að bólgna upp.

Aldrei er svo mikill gaddur um vetrarsólstöður að ekki verði frostlaust sólstöðustundina.

Þurr skyldi þorri, þeysöm (þeysin) góa, votur einmánuður, þá mun vel vora.

Eftir úrfellum á góu þykja jafnan fara úrfelli á sumrum.

Lognsnjór mikill á góu veit á góðan grasvöxt á sumrum.

„Grimmur (góður) skyldi góudagurinn fyrsti, annar og hinn þriðji, þá mun hún góa góð verða.“

„En ef hún góa öll er góð
öldin má það muna
þá mun harpa hennar jóð
herða veðráttuna.“

Sólbráðir á vetrum borgast aftur ef þær koma fyrir þriðja fimmtudag í góu.

Það þykir sannreynt að ís liggi á Svínavatni í Húnavatnssýslu heilt missiri og eftir því sem það leggur að haustinu eða vetrinum má marka hvenær muni taka upp af því að vorinu.

Ef Reykjavíkurtjörn er íslaus fyrir sumarmál þá er von á íkasti eftir þau.

Ef Hörgá ryður sig öll fjalls og fjöru á milli fyrir sumarmál leggur hana eftir sumarmálin.

Vetrarkvöldið síðasta settu gamlar búkonur út skel með vatni í. Ef frosið var á skelinni um morguninn sögðu þær að „frysi saman sumar og vetur“, og þótti það fyrirboði þess að gott mundi verða undir bú það sumar.

Eldiviðarþerrir fer eftir því hvernig viðrar fyrsta laugardag í sumri, en heyþerrir eftir því hvort rigning er eða þerrir fyrsta sunnudag í sumri.

Eftir því fer veðrátta um sauðburð sem viðrar um fengitíma veturinn fyrir.

Þá eru úti allar stórhríðar þegar lóan kemur.

Þá eru úti allar vorhörkur þegar spóinn langvellir.

Sagt er að ætla megi á að sex íhlaup verði á hverju vori: sumarmálarumba, kóngsbænadagsíhlaup, krossmessukast, uppstigningardagshret, hvítasunnusnas og fardagaflan; en gott er allt hvað betur skipast. Þegar þessir dagar eru nánir verða íhlaupin stundum eitt fyrir tvo daga, og standa þá þeim mun lengur. Spóahret og kríuhret eru kölluð sumstaðar á Norðurlandi sem þeir fuglar færi með sér.

Þegar þoka beltar sig í Bláfjalli (við Mývatn) er von á góðviðri.

Þegar sól skín á kvöldum í Bláfjalli veit á þurrk næsta dag. En þegar sól skín í (Reykja-) Hlíðarfjalli á kvöldum veit á vott næsta dag.