Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Illsvitar og varúðir

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Illsvitar og varúðir

Þegar ég hef fyrst til tínt þá illsvita sem ég hef heyrt hnýti ég þar aftan í nokkrum greinum sem lagðar eru til varnanar og úrræða úr illsvitum.

Ef maður tekur heima í kirkjugarði þá er maður feigur.

Ef fjörfiskur spriklar í hvirfli manns og iljum undireins þá er maður feigur.

Ef tveimur dettur sama í hug í einu þá er sá feigur sem seinni verður til að segja hugsun sína nema hann segi um leið: „Ég er ekki bráðfeigari en guð vill;“ þá er hvorugur feigur. – Aðrir segja að sá sé feigur er fyrr segir eða hann fái nýtt fat.

Ef brothljóð eða brestur heyrist í máttarviðum í bæjarhúsum þá er húsbóndinn feigur.

Ef eldur deyr á bæ milli fardaga og Jónsmessu er húsmóðirin feig.

Ef ljós deyr á jólanótt þá er einhver feigur á bænum.

Ef maður heyrir hljóm fyrir eyrum sér, öðru eða báðum, líkt því sem klukkum væri hringt í fjarska boðar það að maður heyri mannslát innan skamms. (Hljómurinn heitir klukknahljóð.)

Ef maður sér stjörnuhrap heyrir maður innan skamms mannslát úr þeirri átt sem stjarnan hrapaði í.

Ef hrafn situr á þekju yfir sjúkum manni og krunkar mjög eða heggur í þekjuna þá er hinn sjúki maður feigur.

Ef gros eða bréfaafklippur leggjast af sjálfsdáðum í kross á baðstofugólfi þá er einhver feigur í bænum.

Ef heilbrigður maður finnur snögglega til ólystar þegar hann smakkar matarleifar annars manns er sá feigur er fyrr borðaði.

Ef rignir í opna gröf á undan eða meðan verið er að taka gröfina eða grafa er sagt „að rigni í moldirnar“, og merkir það að ekki líði á löngu að grafið verði aftur. Bezt þykja þurrviðri við greftrun og er þá sagt að „þeim dauða gefi vel í moldina“.

Ef maður fer í öfugan sokk að morgni dags svo að hællinn verður fyrir tánni, á manni að ganga eitthvað á móti þann dag.

Ef manni er heitt á öðrum fæti, en kalt á hinum, öfundar mann einhver.

Ef maður blóðgar sig við líkkistusmíði er einhver feigur í nánd.

Sjaldan geispar einn þegar tveir eru nema feigur sé eða fátt í milli. (Sbr. „Sjaldan er geispi af góðu hjarta né hiksti af huga góðum.“)

Ef sokkaband dettur af trúlofaðri mey eða manni verður það þeirra svikið í tryggðum sem bandið losnaði af.

Ef tveir menn deyja á einu missiri á sama bæ þá er hinn þriðji feigur.

Ef kirkjuklukkur hringja sér sjálfar þá er sóknarpresturinn feigur.

Ef hrafnar fljúga í kross yfir kirkju þá er einhver feigur í sveitinni.

Ef margar kindur ásækja eina í húsi þá drepst hún bráðum.

Ef hæna galar galar hún óhamingju yfir heimilið.

Ef snæljós fer fyrir glugga þar sem ljós logar inni fyrir rétt við gluggann hleypur snæljósið saman við logljósið og brennir svo bæinn. Það bál verður ekki slökkt með öðru en blóði sjö skilgetinna bræðra þeirra er engin stúlka hefur fæðzt á milli.

Sagt er að sá sem fæðist tveimur nóttum fyrir Pálsmessu (25. janúar) eða næsta dag fyrir Agnesarmessu (21. janúar) eða átta nóttum fyrir Brígitarmessu (1. febrúar), að þess manns líkami fúni ekki né rotni til dómsdags.

Aldrei má opna glugga á næturtíma, aðrir segja vetrartíma, nema áður sé krossað fyrir; annars koma óhreinir andar inn um gluggann.

Ef bönd eru á líkkistu skal skera þau af áður en kistunni er hleypt niður svo hinn framliðni geti risið upp á dómsdegi.

Þegar maður deyr í baðstofu getur sálin ekki komizt út nema skjárinn sé tekinn úr. Þegar menn ætla að sálin sé komin út skal láta skjáinn í öfugan svo hún komist ekki inn aftur.

Ef maður mætir líkfylgd má ekki ganga beint á móti líkinu, því þá verður fyrir manni illur andi sem fer á undan líkinu (mætir þá óvinurinn manni eða svipur mannsins).

Ef maður situr á bæjarþröskuldi sækja að manni reimleikar.

Það er við sjósótt að skera grassvörð úr kirkjugarði og láta í skó sína áður en á sjó er farið.

Ef maður ber á sér tönn úr einlitum svörtum hundi þá gelta ekki hundar að manni.

Ef maður hefur upp í sér tönn úr dauðum manni fær maður ekki tannverk og batnar hann af því.

Ef maður þjáist af hlustarverk skal taka nagla úr höfðagafli á líkkistu sama megin og maður hefur hlustarverkinn og halda honum í hlustinni; mun þá fljótt taka úr allan verkinn.

Ef maður finnur dauðan mann sem úti hefur orðið á víðavangi skal maður hagræða honum eitthvað eða breiða eitthvað yfir andlit honum því annars fylgir hann manni.

Ef maður kemur þar sem lík liggur í húsi skal maður bregða krossmarki yfir það með hægri hendi um leið og maður heilsar öðrum heimamönnum.

Enginn draugur er svo magnaður að hann ráðist framan að allsberum karlmanni; því er það bezta ráð að fara úr öllum fötum þegar maður á draugs von.

Ef maður er í fötum sínum úthverfum getur aldrei um mann villt. Úthverfur vettlingur vísar á dyr í dimmu húsi.

Ef maður leggur skyrtu sína úthverfa ofan á sig áður en maður fer að sofa þá sækir ekki að manni.

Ef maður þykist hafa of lítinn byr á siglingu skal maður fara úr skyrtunni og tína úr henni lýsnar í seglið og mun byrinn þá brátt vaxa.

Ef maður hefur vörtu á sér og vill ná henni af skal núa um hana mold þeirri sem næst liggur beinum rotins manns úr kirkjugarði og mun hún þá detta af.

Ef kona eða skepna getur ekki komizt frá fóstri sínu þarf ekki annað en hnýta sigurhnút og sigurlykkju upp yfir henni; það skal gera þrisvar sinnum. Fæðir þá móðirin fljótt og þjáningalítið.

Ef maður getur ekki skilið við skal breiða messuhökul yfir andlit manni og mun hann þá andast.

Ef maður getur ekki sofið skal leggja hökul undir höfuðið á honum svo hann viti ekki af eða nöfn hinna sjö sofenda skrifuð á blað eða Davíðssaltara.

Ef maður fær áblástur á varir þarf ekki annað en fara í eldhús og kyssa hóinn þrisvar og kveða þetta í milli:

„Heil og sæll, hór minn,
er húsbóndinn heima?
Eg skal kyssa snös þína
ef þú græðir vör mína.“

Ef maður fær bólu á tunguna skal maður segja: „Ein bóla á tungu minni, engin á morgun“ o. s. frv. þangað til tuttugu eru komnir, þá skal aftur telja öfugt og byrja svo: „Tuttugu bólur á tungu minni, engin á morgun, nítján bólur,“ o. s. frv. þangað til maður hefur aftur talið „ein bóla“. Skal lesa þessar runur rétt og öfugt sjö sinnum, aðrir segja þrisvar, á kvöldin áður en maður sofnar; er þá bólan horfin að morgni.

Þegar maður stingur sig á nál skal stinga henni í tré, þá batnar sviðinn.

Ef maður missir tönn skal stinga henni í veggjarholu eða láta hana í leiði í kirkjugarði; annars kemur aldrei tönn í skarðið.

„Guð hjálpi mér,“ segja menn þegar menn hnerra eða: „Guð hjálpi þér,“ þegar annar hnerrar. Þessi siður er fyrst kominn upp í svartadauða; hann gekk í héraði einu sem annarstaðar hér á landi og strádrap allt fólk. Loksins kom hann á einn bæ þar sem tvö systkin voru; þau tóku eftir því að þeir sem dóu á bænum fengu fyrst geysilega hnerra; af þessu tóku þau upp á því að biðja guð fyrir sér og hvort fyrir öðru þegar þau fengu hnerrana; og lifðu þau tvö ein eftir í öllu héraðinu. Af þessu skal jafnan biðja guð fyrir sér þegar maður hnerrar og deyr þá enginn af hnerrum.

Ef maður lýsir veikindum annars manns eða talar um þau skal maður æ bæta þessu við: „Á honum (henni), en ekki mér.“ Annars fær maðurinn sama sjúkdóminn.

Ekki skal segja óvin sínum hvar fjörfiskur spriklar í manni, því ekki þarf annað en berja á fjörfiskinn, þá er maðurinn dauður.

Ef karlmaður eða kona deyr svo þau hafi ekki átt neitt barn er það þeirra hegning í Valhöll að maðurinn á að þæfa hæru, en konan að skaka bandstrokk til dómsdags.

Ef maður drepur jötunuxa með litla fingri á vinstri hendinni verður maður laus við sjö stórsyndir.

Allt það sem menn óska sér og fá ekki fær kerlingin í Valhöll nema sagt sé um leið og maður óskar:

„Vatn og salt í Valhöll,
en óskin öll til mín.“

Ekki skal mæla nýbærumjólk í fyrsta sinni sem undir hana er farið því þá græðir hún sig ekki meir. Ekki skal heldur bera mjólkina í baðstofu né undir bert loft; varlegra er og að krossa kúna ofan og neðan þegar hún er mjólkuð í fyrsta sinni, annað og þriðja; á hún þá að græðast betur.

Alla smérvali (smérvalsuga) eða smérvalsigla (sbr. gleypibein) skal grafa svo djúpt í jörð sem verður og lesa þetta yfir: „Verðu mig eins vítiskjafti sem ég ver þig hundskjafti.“

Smérvalsigillinn er bein í sauða- og gripalærum þar sem mætist bóndahnúta og langleggur; hann heitir gleypibein; má ekki fleygja honum fyrir hunda því það er fríður kóngsson í álögum, og forðar manni fjárdauða ef maður annaðhvort gleypir hann (og þaðan er nafn hans dregið) eða stingur honum í veggjarholu og segir um leið: „Ég sting þér í veggjarholu; forðaðu mér fjárdauða, fyrst ég forða þér hundskjafti.“ Ef allir gerðu svo kæmist hinn fríði kóngsson úr álögum.

Þokan er kóngsdóttir í álögum og leysist úr þeim þegar allir smalar taka sig saman um að blessa hana.

Aldrei tjáir að leggja lagvað í sjó nema grár hrútur, tarfur eða hestur sé áður leiddur yfir vaðinn; annars á ekki að aflast í hann.

Hákarlinn væri óætur sjóormur ef hið helgaða þorskroð bætti hann ekki; (það mun eiga að borða saman hákarl og þorskroð?)

Allt er matur sem í magann kemst nema óskafið gedduroð og ósoðnar holtarætur.

Þegar fénaður er fluttur af einni jörð á aðra skal gæta þess að koma með hann í þá landareign sem hann á að vera í, með aðfalli; því þá unir hann; en ef hann kemur þangað með útfalli vill hann æ strjúka þaðan.

Þegar settir eru strompar (reykháfar) í nýbyggð eldhús eða lagðar hlóðir skal gæta þess að gera það með útfalli; annars verður eldhúsið reykjarrass mesti.

Þegar hlaðin er stekkjarkví skal þess gæta að hlaða kampana með aðfalli svo féð gangi vel inn.

Þegar fénaður er skorinn til slátrunar skal gæta þess ævinlega að skera með flóði, því þá verður blóðið þriðjungi meira í skepnunni.