Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Jólanóttin

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jólanóttin

Það er nú svo sem sjálfsagt að allir halda til jólanna sem er móðir allra hátíða annara; þá er ekki lítið um dýrðir fyrir börnunum sem hlakka til að sjá svo mörg ljós sem kostur er á að sjá bæði í kirkjum og heimahúsum. Þessi ljóshátíð er þó ekki aðeins hjá mennskum mönnum, heldur einnig hjá álfum því þá voru híbýli þeirra öll ljósum prýdd og allt lék þá hjá þeim á alsoddi af dansi og hljóðfæraslætti.

Hvort sem nú mennskir menn hafa tekið það upp eftir dansferð álfa að hafa vikivakana helzt um jólaleytið sem síðar mun sagt, þá er það þó víst að jólin voru og eru sannkölluð ljóshátíð einnig hjá mönnum, því til forna var það siður að húsmæður sópuðu allan bæinn horna og enda á milli bæði á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld, síðan settu þær ljós í hvern krók og kima svo hvergi bæri skugga á, og fögnuðu með því álfum þeim sem á ferð kynnu að vera eða flyttu sig búferlum á nýjársnótt. Þegar þær höfðu sópað bæinn og sett ljós í hann gengu þær út og í kringum hann, sumir segja þrisvar, og „buðu álfum heima“, svo mælandi: „Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, og fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinlausu.“ Þessum formála fylgdi það og að konur báru stundum vist og vín á borð í bæjum fyrir álfa, og segir sagan að vistin væri jafnan horfin að morgni. Vera má að meir hafi það tíðkazt að bjóða álfum heima á gamlárskvöld og að bera mat á borð fyrir þá en á aðfangadagskvöldið, en ljósagangurinn var engu minni á jólanóttina en nýjársnótt og þegar fólkið fór að hátta þessi kvöld hafði húsfreyja jafnan gát á því að ekkert ljós væri slökkt og setti þá upp ný ljós í hverju horni þegar hin voru farin að loga út eða lét á lampana aftur svo ljósin skyldu endast alla nóttina þangað til kominn var bjartur dagur daginn eftir. Það er enn sumstaðar siður hér á landi að láta ljós loga í baðstofum yfir fólkinu þó það sé sofandi, báðar þessar nætur, og þó ekki sé lengur kveikt ljós í hverju horni eldir það enn eftir af ljósaganginum forna að víða er hverju mannsbarni á heimilinu gefið kerti bæði þessi kvöld, en einkum á aðfangadagskvöldið, og kallað jólakerti og nýjárskerti.

Þó gátu menn ekki notið jólagleðinnar með öllu áhyggjulausir því auk jólasveinanna sem fyrr eru nefndir[1] var það trú að sú óvættur væri þá á ferð sem var kallaður jólaköttur. Hann gerði reyndar engum þeim mein sem eignuðust einhverja nýja flík að fara í á aðfangadagskvöldið, en hinir sem ekkert nýtt fat fengu „fóru allir í jólaköttinn“,[2] svo hann tók (át?) þá eða að minnsta kosti jólarefinn þeirra og þótti þá góðu fyrir goldið ef kötturinn gerði sig ánægðan með hann. En jólarefur hét það sem hverjum heimilismanni var skammtað til jólanna (ket og flot o. s. frv.) á aðfangadagskvöldið.[3] Af þessu kepptust allir við, bæði börn og hjú, að vinna til þess af húsbændum sínum fyrir jólin að fá eitthvert nýtt fat svo þeir færu ekki í ólukkans jólaköttinn né að hann tæki jólarefinn þeirra, og þegar börnum og hjúum tókst bæði að fá nýja flík, nógan jólaref og þar á ofan jólakerti og það sem mest var í varið, að þurfa ekki að fara í jólaköttinn, var ekki kyn þó kátt væri um jólin til forna. Um jólagleði barna er þetta kveðið:

„Það skal gefa börnum brauð
að bíta í á jólunum,
kertaljós og klæðin rauð
svo komist þau úr bólunum,
væna flís af feitum sauð
sem fjalla gekk á hólunum.
Nú er hún gamla Grýla dauð;
gafst hún upp á rólunum.“

Enn má telja það jólanóttinni til gildis að þá voru útisetur á krossgötum einna tíðastar og vikivakar almennast haldnir.

  1. Missagnir eru um það hvort jólasveinar færu að koma til byggða 13 eða 9 nóttum fyrir jól og hafa sumir fært þetta erindi sem sönnun fyrir því síðara, sem þeir eigi að kveða:
    „Upp á stól
    stendur mín kanna;
    níu nóttum fyrir jól,
    þá kem ég til manna.“
    En seinna hef ég heyrt að það væri sumstaðar trú nyrðra að jólasveinar ættu að koma að landi (af sjó?) með norðanátt á jólaföstu eða með henni, en færu aftur með sunnanátt um þrettánda og er sú sögn um leið auðsjáanlega fyrirspá um veðráttufar, að það geri norðanátt með jólaföstu, en sunnanátt eða hláku með þrettánda.
  2. Eða „klæddu jólaköttinn“ sem sumir kalla fyrir norðan. Sumstaðar (í Borgarfirði) er sú sögn að þeir sem enga nýja spjör fengu fyrir jólin ættu þar að auki að hafa þá skrift að fara á aðfangadagskvöldið með fullt hrútshorn af hlandi í hendinni þangað sem þeir væru fæddir og skvetta úr horninu í rúmið sem þeir voru fæddir í. Hvernig sem á þetta er litið, lítur svo út sem þessar skriftir hafi verið hafðar fyrir keyri á börn sem voru löt að læra og ljúka við það sem þau áttu að vera búin með fyrir jólin.
  3. Hvergi hef ég orðið þess var að bændur skammti sjálfir miðdegismat á jóladaginn hjúum sínum og húsfreyjunni með sem Eggert Ólafsson getur um í ferðabók sinni (I, 316) að hafi tíðkazt norðan (vestan) til í Barðastrandarsýslu, en vitað hef ég að húsmæður hafa aflokið miðdegismatarskammti til jólanna á aðfangadagskvöldið. Eins er það víða enn siður sem Eggert getur um að bændur slátri kind til jólanna; er það kölluð jólaær hvort sem það er ær eða önnur kind.