Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Kóngsbænadagur

Kóngsbænadagurinn eða hinn almenni bænadagur var lögskipaður 11. apríl 1702. Um hann er fátt í frásögur fært nema hvað mörgum mathák stóð fyrst í stað illur stuggur af föstunni sem kóngsbréfið tiltók um bænadagshaldið, enda er sagt að það hafi lengi viðgengizt hér sem enn kvað vera siður í Danmörk að ekki væri tekinn upp eldur á kóngsbænadaginn. En eins og menn misskildu tilgang bænadagsins og kölluðu hann kóngsbænadag af því þá ætti einungis að biðja fyrir kónginum, eins misskildu þeir föstuhaldið þann dag sem sjá má af vísu þessari sem þar um er kveðin:

„Um Ísalönd aukast nú vandræðin,
fer í hönd föstudagssulturinn;
fyrir því kvíða margur má matbráður dóni
að ekki skuli þeir fæðu fá frá fimmtudags nóni
til laugardags, lifandi nauða,
ég sé það strax, þeir svelta til dauða;
annars lags má leitast við kauða:
að skammta þeim fullan skattinn sinn,
áður en kirkju fara á fund svo fullur sé maginn,
og kreiki þeir svo með káta lund á kóngsbænadaginn.“

Að öðru leyti hafa menn haft horn í síðu kóngsbænadagsins vegna íhlaupsins sem honum fylgir og áður er á minnzt.