Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Merkidagar í hverjum mánuði

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Merkidagar í hverjum mánuði

Gott veðráttufar fyrst og síðast í janúar. Eins og viðrar þann næsta dag fyrir og eftir og eins næturnar fyrir og eftir sem sól gengur í vatnmannsmerkinu svo mun líkt viðra mestan part sumars. Svo sem viðrar til miðdegis á nýjársdag mun oftast viðra janúar, en frá miðdegi skal febrúar marka. Merk sex daga fyrir tvo mánuði eftir þann fyrsta dag í árinu. Ef á nýjársdag er morgunroði er gott merki. [Fiskiafli næsta sumar fer eftir stjörnusýni á nýjársnótt. Sömu nótt er sagt að allt vatn verði snöggvast að víni, einnig sé þá óskastund.] Ef sólskin er á Víncentiusmessudag (22. janúar), það er merki til gróðurs og góðs árferðis. Sólskin og heiðríkt veður á Pálsmessu [25. jan.] boðar frjósama tíma; sé dögg og þykkviðri eða snjókoma merkir harða veðráttu. [Um Pálsmessu er þetta kveðið:

„Ef heiðbjart er og himinn klár
á helga Pálusmessu,
mun þá verða mjög gott ár;
mark skalt hafa á þessu.
Ef að þoka Óðins kvon
á þeim degi byrgir,
fjármissi og fellisvon
forsjáll bóndinn syrgir.“]

Febrúar. Ef febrúar er heitur þá verður kalt um páska. Ef sólskin er á kyndilmessu [2. febr.] er von meiri snjóa en verið hefur fyrri part vetrar [sem kveðið er:

„Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kyndilmessu,
snjóa vænta máttu mest,
maður, upp frá þessu.“]

Eins og viðrar á Mattjasmessunótt [milli 23. og 24. febr.] halda menn viðri 14 daga eftir. Sjái ekki sól þriðjudag í föstuinngang mun oft heiðríkja um föstuna. Eftir því sem viðrar á öskudag mun viðra 14 [aðrir segja 18] daga af föstunni; [þeir dagar heita „öskudags-bræður“]. Lítið frost og snjór í janúar og febrúar boða frost og kulda marz og apríl. Hiti um jól boðar kalda páska.

Marti. Heiðríkt veður í marti er haldið góðs árs merki. Svo margir þokuhringar sem verða í marti, svo mörg ofanföll verða á árinu, og svo margar hringdaggir sem verða í marti, svo margar verða þær eftir páska með hreggi og kulda. Fyrir hundrað árum hafa menn veitt því eftirtekt að ef á boðunardag Maríu [25. mart.] fyrir sólaruppkomu væri veður heiðríkt og stjörnuljós þá væri von á góðu árferði og veðráttufari. [Sagt er að sjaldan sé sama veður á passíónssunnudag (Judica), pálmasunnudag og páska.]

Apríl. Votviðri mikil í apríl merkja frjósamt sumar, og hve lítið sem rignir á uppstigningardag merkir hart veður eftirleiðis. Ef veður er hreint og klárt er góðs árs viti.

Maí. Ef að gróðasamt er í maí er góðsviti. Liggi í þessum mánuði þoka yfir sjónum til lengdar er góðsviti. Séu kaldir dagar um hvítasunnu og heitir með köflum héldu gamlir menn góðsvita.

Júní. Eins og viðrar þann 8. júní vill viðra 4 vikur. [Eins og viðrar sjö sofenda dag (27. júní) eins viðrar næstu sjö vikur.]

Júlí. Tvær vísur:

„Ef að Maríumessa[1] er vot
sem miðju sumri er næsta,
muntu hafa í nánd afnot
nokkra daga hið fæsta.
Ef á Margrétarmessu[2] er dögg
mun það lítið bæta,
þá mun haustið hey og plögg
í húsum inni væta.“

Ef Jakobsmessa [25. júlí] til miðdags hefur sólskin þá veit á kaldan vetur, ef döggfall er veit á votsaman vetur. Fyrri partur Jakobsmessu markist veður fyrri part vetrar, síðari partur dags viðrar sem síðari partur vetrar. Regn og dimmviðri merkir ótíð. Sé sólskin þann dag sem sól gengur í ljónsmerki og næsta dag fyrir og eftir, líkt því mun viðra desember, janúar og febrúar. Sé þurrviðri á þessum merkisdögum verður frost og kuldi þessa mánuði, en viðri hverki vott né þurrt verða umhleypingar. Ef fullt tungl er á Ólafsmessu [29. júlí] má vænta eftir hörðum vetri. – Klárt veður á Þing-Maríumessu [2. júlí] merkir góða veðráttu fram úr.

Águstus. Klárt veður á Lárensímessu [10. ág.] halda menn merki kaldan vetur; en ef þykkviðri er boðar vetur votsaman. Ef á Maríumessu fyrri (15. ág.) er sólskin þá boðar það góðviðri eftirleiðis. Barthólómeusmessu [24. ág.] eins og þann dag viðrar vill haustið viðra.

September. Egidiusarmessa er þann 1.; ef fagurt er veður þann dag, eftir því mun mánuðurinn verða, en ef veður er þurrt boðar gott haust. Ef frost eru mikil fyrir Mikalismessu [29. sept.] munu þau koma eins mikil eftir hana. Ef skógarlauf falla seint í þessum mánuði veit á hart. Eins og viðrar þann dag og nótt sem sól gengur fyrir metaskálum [Libra] og næsta dag og nótt eftir, svo mun oftast viðra í marzi, apríl og maí. Svo sem viðrar frá krossmessu á hausti [14. sept.] til allra heilagra messu [1. nóv.] svo mun viðra það eftir er það ár til enda. Smátt og kringlótt hagl í þessum mánuði merkir langvaranlegan kulda; bleikihagl merkir lin.

Október. Klárt veður á Galli dag [16. okt.] er gott vetrarmerki. Svo margir dagar sem eru frá þeim fyrsta snjó og til þess að næst kemur tunglskvartil, svo marga daga vill snjór koma að vetrinum. [Oft verða höstug íhlaup með snjókomum og frosti fyrir vetur í september og október; þau íhlaup heita „haustkálfar“ og boða gott haust jafnvel allt til jóla.]

Nóvember. Ef rignir þann tíma sem sjöstjörnur ganga undir morguninn um Marteinsmessu [11. nóv.] kemur vor seint, en rigni ekki veit á gróðursamt og gott vor. Þann 11. ganga undir Hieðis-stjörnur; sé sá dagur votsamur og þykkt loft eftirfylgir óstöðugur vetur; sé heiðskírt loft og sólskin þá verður harður vetur frostamikill. Ef gott er á allra heilagra messu [1. nóv.] boðar góðan vetur.

Desember. Blási 4. jólanótt, veit á hart, en blási þá 5., veit á slæmt sumar; blási 6., verður grasvöxtur lítill; 7. nótt, verður ár gott ef þá blæs; blási 13. nótt jóla vestan veit á gott fiskiár, en vindur af landnorðri veit á frostasumar. Þegar hreint veður er á jólanótt og regnlaust og aðfangadag halda menn boði frostasamt ár, en viðri öðruvísi, veit á betra. Jóladagur merkir janúar, annar merkir febrúar, þriðji merkir marti, fjórði apríl. Sé sólskin fagurt á jóladag, verður ár gott; sé það annan dag verður hart. Svo sem viðrar þann dag sem sólhvörf verða mun veturinn, og eins og viðrar þrjá daga fyrir og þrjá eftir. Ef stillt viðrar seinasta dag í árinu mun gott ár verða sem í hönd fer. Þegar jóladagur kemur með vaxandi tungli veit á gott ár, og sé hann góður veit á því betra. [Ef jól eru rauð verða hvítir páskar, en rauðir ef jólin voru hvít.]

  1. Þ. e. Þing-Maríumessa, 2. júlí.
  2. 13. júlí.