Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kreddur/Spákona mín
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Spákona mín“
„Spákona mín“
Maður tekur sauðarvölu og kastar henni á slétt borð eins og teningi og segir: „Segðu mér það spákona mín sem ég spyr þig að.“[1] Þá kemur spurningin og verður hún að vera svo löguð að valan þurfi ekki nema að segja já eða nei.
Þá heldur maður áfram og segir: „Ef þú segir mér satt skal ég gefa þér fríðan kóngsson, en ef þú lýgur skal ég brenna þig í eldinum á morgun“ – eða: „ef þú segir mér satt þá skal ég láta þig ofan í rjómabiðuna, en ef þú lýgur skal ég láta þig í keytukirnuna.“ Komi nú bungan upp á völunni þá þýðir það já, en komi holan upp neitar hún. Komi hliðarnar upp þá segir hún: „Þig varðar ei um það“ eða: „ég veit það ekki“.
- ↑ [Aðrir:] Maður segir við völuna: „Upp er kryppa á völu minni. Segðu mér það spákona er spyr ég þig að. Ég skal með gullinu gleðja þig, silfrinu seðja þig ef þú segir mér satt, en brenna þig á eldi ef þú lýgur að mér.“