Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Óskasteinn (1)
Óskasteinn
Óskasteinninn heitir svo af því að hvers sem maður óskar sér þegar maður hefur hann fær maður ósk sína uppfyllta.
Ýmsum sögum fer einnig um það hvernig hann fáist:
1. Óskasteinn finnst við sjó að hálfföllnu þegar tungl er nítján nátta og sól í fullu suðri. Leita þú hans á páskamorguninn,[1] ber hann undir tungurótum þér og mæl til þess er þú vilt. Steinn þessi er hvítgulur að lit og nokkuð ljósleitur; hann er mjög líkur baun.
2. aðferð er það að taka hrafnsegg hið fyrsta sem hann verpir (en Purkeyjar-Ólafur segir að eggið skuli taka tveim dögum áður en hrafninn ungi út og án þess hann viti af), sjóða það í vatni í leirmunnlaugum samhvolfdum og láta það svo aftur í sama hreiðrið. Síðan skal bíða nærri hreiðrinu þangað til hrafninn hefur klakið út hinum eggjunum; en þegar allir ungarnir eru skriðnir úr þeim verður soðna eggið eitt eftir óútklakið. Skal þá taka það og brjóta á gat; finnur maður í því flatan stein og flekkóttan að lit, það er óskasteinninn. Þann stein skal taka og bera á sér í olbogabót. „Óskaðu þér svo hvers sem þú vilt, en þó með varúð,“ segir Purkeyjar-Ólafur. „Geym hann í nýju líni og ber hann ætíð á þér,“ segja aðrir.
Enn eru fleiri frásagnir um óskasteininn og eigi hann að vera eggjakerfi óskabjarnarins (onisci psoræ) sem er margfætt sækvikindi og er stundum hálfur þriðji þumlungur á lengd, og angrar hann helzt hákarla. Þetta eggjakerfi verður hart eins og steinn og svart á lit þegar það þornar og rák eða far eftir báðum flatvegum steins þessa, líkt og klöppuð væri rák fyrir fati á vaðsteinum fiskimanna.
Því er sagt að þessi litli steinn úr óskabirninum sé vaðsteinn sankti Péturs og er sú saga til þess að óskabjörninn hafi upphaflega verið einhver stærsti hvalur í sjó og illur eftir því. Einu sinni þegar sankti Pétur kom úr fiskiróðri elti hvalurinn bátinn hans og vildi granda honum. Pétur fleygði þá vaðsteini sínum í hvalinn og gjörði hann um leið að þessu litla sækvikindi svo að það skyldi aldrei oftar gjöra skipum mein. Þenna stein úr óskabirninum hafa menn borið á sér og ímyndað sér að hann verði þá slysum og óhöppum.
Það hefur og verið trú að ef maður leggur lifandi óskabjörn upp í loft undir tungurætur sér fái maður allt sem maður óskar sér ef það er gjört áður en hann festir sig við tunguna. Enda getur björninn ekki fest sig þegar búið er að óska. Trú hefur verið á því að sá gæti óskað sér og fengið hvað sem hann vildi sem hefði stein þenna á tungu sér eða þó enn heldur óskabjörninn sjálfan lifandi, en það mun vera blandað málum við fyrri aðferðina, að leggja hann undir tunguræturnar.
- ↑ Líklega af því að „hátíð er til heilla bezt“.