Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Óskasteinninn í Tindastól

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Óskasteinninn í Tindastól

Einu sinni var stúlka á gangi í Tindastól og fann stein einn fallegan. Hún hugsaði sér þá af rælni að hún vildi að hún væri komin í þá beztu veizlu sem haldin væri í heiminum. Hún hvarf þá allt í einu eitthvað út í veðrið og vissi eigi fyrri af en hún stóð í dýrðlegri höllu og hafði hún aldrei séð aðra eins prýði. Maður kom þar fram með gullbikar í hendi og rétti að henni. Hún tók við bikarnum, en varð svo skelfd af öllu því er fyrir augun bar að hún óskaði sér að hún stæði á sama stað og áður í Tindastól, og það varð líka. Fleygði hún þá steininum og kvað hann skyldi ei oftar villa sig, en hélt heim með bikarinn. Þessi bikar þótti mikil gersemi og var farið með hann til prestsins, en hann kvaðst eigi vita hvar til hann yrði brúkaður. Var þá bikarinn sendur konungi og gaf hann stúlkunni fyrir bikarinn þrjár jarðir í Skagafirði.