Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Örnefni hjá Steinum
Örnefni hjá Steinum
Í Steinalandi eru fá örnefni sem sögur hafa af farið nema Ingimundur, hár standur fyri austan lækjargilið á Steinafjalli. Þar drap Rútur á Rútafelli einn son sinn og mun þess víst getið í sögu hans.
Annað er Þórlaugarsteinn og vita menn enga sögu um það.
Þriðja er Gálgasteinn, langur steinn mikinn part í jörðu nema yfirborð og annar endi; þar í er hola auðsjáanliga klöppuð sem far eftir staursenda. Sú er sögn um hann að þegar þingstaður var í Holti – þangað til nálægt eða eftir aldamótin 1800 – þá hafi þar verið hengdur þjófur.
Fjórða er Nykurpyttur og Hellisvatn; þar skal nykur hafa haft aðsetur sitt og sézt þar, ekki fyri mjög löngu. Ósinn er nú búinn að fylla hann svo hann er ekki meir en í mjöðm á fullorðnum manni. En – ekki er undir einum skjól – pyttur er í Hellisvatninu sem enginn veit hvað djúpur er; þar í er hann haldinn að vera nú orðið. Ekki er hann stærri en sem svarar fari eftir heilan hest fullorðinn.