Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Örnin

Hún hefur nú skipt um kynferði sitt því áður var hún karlkyns, en nú er hún orðin kvenkyns; þar að auki er oft stytt nafn hennar og hún kölluð „assa“. Við það nafn hennar og þann eiginlegleika að hún situr oft löngum tímum saman á sama stað loðir sá talsháttur að sagt er að sá sé „þaulsætinn eins og assa“ sem tefur þegar hann kemur einhverstaðar.

Þó fugl þessi hafi breytt kyni heldur hann þó þeirri tign sinni að hann er kallaður „fuglakóngur“, líklega af því assa er fugla stærst. Það er alkunnugt um örnina að hún situr tíðum á árbökkum þar sem lax gengur í. Gengur henni það til þess að hún hremmir laxinn ef hann syndir svo nærri bakkanum að hún nái til hans með annari klónni, en haldi sér með hinni í bakkann. Ef laxinn er ekki stærri en svo að hún geti dregið hann upp á bakkann étur hún hann allan að framan aftur að gotrauf, en ekki lengra. Sé laxinn stærri en fjórðungslax hefur assa ekki bolmagn á að draga hann að sér, því síður að ná honum upp á bakkann. Er það því sagt að oft hafi menn fundið örn fasta í bakka á annari klónni, en með hina í stórum laxi. Ef örnin er lífs þegar að er komið þykir það eitthvert vissasta lánsmerki að taka hana úr þeirri beyglu þar sem hún hangir milli lífs og dauða því hún getur ekki losað af sjálfsdáðum klóna úr laxinum aftur, en líf hennar er í veði ef hún losar hina klóna úr bakkanum því þá færir laxinn hana í kaf.

Í annari grein er sagt að assa sé stundum upp á mennina komin, en það er í því að ef efri skoltur arnarnefsins sem beygist mjög niður fyrir hinn neðri vex til muna og beygist um leið meir að þá fer svo um síðir að krókurinn lendir inn undir neðra skolti nefsins svo að hún getur lítið sem ekki opnað nefið og alls ekki náð til bráðar. Þegar svo er komið er ekki annað fyrirsjáanlegt en hún deyi ef þá vill ekki svo til að þar beri menn að sem hún er sem geti höggvið eða tálgað af henni nefkrókinn því þegar svo er komið er hún gæf sem hundur. Er það og talið eins mikið auðnumerki að geta hjálpað henni í þessum kröggum eins og að geta losað hana úr laxinum.

Eins og öll kvikindi eiga einhvern óvin eins á assa hann þar sem músarrindillinn er og er hún allhrædd við hann þó hann sé lægri á leggjunum. Sú er sök til þess að mælt er að þegar örnin flýgur sé hún allþung á sér og verði því að neyta allrar orku til að geta flogið svo hátt sem henni líkar; af því er það og sagt að þegar hún er á flugi rembist hún svo mikið að opinn standi á meðan þarfagangur hennar og þetta viti rindillinn og sæki hann þá mjög aftan að og neðan undir stél össu og leitist við að fljúga inn í hana að aftan til að særa hana þar. Þessari sögu til sanninda er það talið að arnir hafi fundizt dauðar með músarrindil dauðan í þarfaganginum.