Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Útvortis einkenni barna

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Útvortis einkenni barna

Að nokkru leyti á hér heima sú hjátrú að ýmislegt útvortis á nýfæddu barni tákni bæði andlega og líkamlega hæfilegleika sem það muni hafa á síðan.[1] Þess hefur áður verið getið að það barn sem borið væri í sigurkufli yrði gæfumaður[2] og eins þess að draugur áræddi ekki framan að sambrýndum mönnum né þeim sem hefðu loðinn kross á brjóstinu.[3] Það er og trú manna að þau börn sem fæðast með (tveimur) tönnum verði skáld; þær tennur heita „skáldagemlur“. Einnig segja menn að þeir verði góð skáld sem sé svo tungulangir að þeir nái með henni upp í nefið á sér (miðsnesið). Um hendur manna er það trú að saman fari „stutt hönd og stelvís maður“ og „löng hönd og lyginn“, en þó er sá kallaður „fingralangur“ sem þjófgefinn er. Fattar fingur eru nefndar „smíðafingur“ á sveinbörnum, en „saumafingur“ á meybörnum.[4]

  1. Enginn skyldi furða sig á því að maðurinn að líkamlegum eiginlegleikum til er talinn með dýrunum þar sem hann er álitinn efsti liðurinn í sköpunarfestinni.
  2. Sjá Fylgjur.
  3. Sjá Skyggnleika.
  4. Þetta eru munnmæli, en það yrði heljarlangur kapítuli ef hér ætti að tiltína öll þau einkenni sem talin eru á líkama mannsins eftir temperamentunum í náttúrufræðis- og lækningabókunum eldri sem auðsjáanlega eru útlagðar á fyrri öldum. Þessleiðis er t. d. margt í Hamraendabók sem ég kalla svo af því ég hef fengið hana frá Guðmundi bónda Jónssyni í Hamraendum í Stafholtstungum; hún er mestmegnis „skrifuð að nýju“ um miðja 18. öld.