Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Agatsteinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Agatsteinn

Sé agatus vorðinn gamall og ónýtur þá lát hann fimm nætur milli brjósta ungrar stúlku sem er mey, og batar það steininn þó hann sé ungur.

1. Sé á honum kveikt snarkar í honum sé óhreint í húsinu.

2. Lát reyk af honum leggja upp í nasir á þeim sem hefur glettingar, og eins má gjöra við kvikfénað ef óhreint er á þeim.

3. Skaf hann í lítið messuvín og gef konu að drekka við tregum barnburði, en áður má hún drekka þrjá spæni af því vatni sem nýtt hænuegg er soðið í, so heitt sem þolir, og bíði stund á milli og drekki so það steinskafna í köldu vatni. – Reykur hans í nasir konu luktaður greiðir veg hennar.

4. Sá drukknar trautt sem hann ber á sér.

5. Verður ei með göldrum unninn.

6. Hægra megin borinn á þingum hjálpar að vinna mál. Hann á að geymast í hveiti.

7. Ef agates er skafinn smátt og látinn í mat þess er stolið hefur þá helzt honum ei niðri það sem hann át og agates var í látinn.

8. Ef einhvur gjörir svik í mat eða drykk með einhvurju því sem forgiftugt er þá verður því ei niður rennt ef agates er þar í látinn.