Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Austmannahólar og -gjá
Austmannahólar og -gjá
Haukur hét bóndi er bjó að Haukabergi á Barðaströnd. Átti hann í landaþrætu við bónda þann er í Haga bjó og er sá ei nefndur. Hann var auðugur og voru Austmenn á vist með honum. Óx nú fjandskapur Hauks og Hagabónda svo að hann vildi að Hauki og drepa hann og skyldu Austmennirnir veita honum að því. Hugðist hann nú að koma Hauki á óvart og fór heiman fram Hagadal og svo yfir eggjar er Kjölur heita og ofan gjá þá í fjallinu er Austmannagjá er síðan kölluð. Hauki hafði njósn komið af aðförinni, hugðist þegar að mæta þeim og fór með menn sína fram Þrönguhlíð allt til hóla þeirra er liggja á sléttu nokkurri undir gjánni, og nam þar staðar er hann sá þá Hagabónda og Austmenn koma ofan gjána. Varð þar fundur þeirra á hólunum og lauk svo að Haukur fékk sigur. Féll þar Hagabóndi og Austmennirnir og voru þar dysjaðir. Heitir þar síðan Austmanns- eða Austmannahólar.
Þá er Guðmundur Sigmundarson er síðan bjó í Litluhlíð, merkur maður, fóstri Helga Sæmundarsonar er nú býr á Skjaldvararfossi, — fannst þar í hólunum spjót ryðgað og uppblásið og tveir koparhringar ei alllitlir er fundust þar á holti einu. Var tálguknífur smíðaður úr oddi spjótsins, en ljár úr blaðinu. En fyrir því að slysagjörn urðu eggjárn þessi þeim er þau áttu og sennilega er frá sagt, þá trúði alþýða að forneskja mundi fylgja.
Knífinn átti síðan Magnús Ólafsson bróðir Eggerts vicelögmanns, og var það um vetur er þeir Eggert bróður hans voru á vist með Birni pr[esti] Halldórssyni mági sínum í Sauðlauksdal að Magnús smíðaði að stólum þar í kirkjunni fyrir páskana; en er hann gekk laugardaginn fyrir páska frá eða til kirkjunnar rasaði hann og datt; hélt hann á knífnum og stakkst hann inn í lærkrík honum; varð af því blóðrás svo mikil að ei varð stillt til hlítar. Var þegar á páskadagsmorguninn sent eftir Hallgrími Bachmann læknir. Kom hann vestur þar annarsdagskvöld páska. Fékk hann að vísu stillt blóðrásina og haldið hreinu sárinu, en ei grætt fyrri en að hann fékk til meðul af frakknesku skipi er út kom á Vatneyri, svo Magnús gat gengið við staf á áliðnu sumri. Átti hann lengi í þessu áður hann heill yrði.
Magnús hét bóndi á Vaðli á Barðaströnd og kallaður bredda, er átti ljáinn. Var það um sumar á túnaslætti í þurrki miklum að hann datt á ljáinn. Stakkst hann inn fyrir neðan herðarblaðið; var það banasár og dó Magnús að sólarhring liðnum. Og víst er það að Magnús stakk sig á ljá til bana. Hann var faðir Guðmundar er drukknaði úr Bjarneyjum 1800, föður Guðmundar er dalli var kallaður og dó í Alheim á Flatey.
Síðan er sagt Jón Þorgrímsson smíðaði sér kníf úr ljábrotum þessum; hann var maður Saka-Steinunnar, og væri það þá þau Bjarni og Steinunn myrtu Jón og hrundu honum ofan af ísmóð á sæ út, er hann vildi upp skríða, þá lagði Bjarni til hans með broddstafnum er hann og meðkenndi síðan, og segir fólk svo þar vestra að Steinunn styngi þá Jón með knífnum úr ljábrotunum þótt hún meðkenndi það ei fyrir rétti. En það þykjast sumir hafa heyrt að hún meðkenndi það fyrir dauða sinn syðra í fangelsi að unnið hefði hún á Jóni með Bjarna.