Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Bjarndýrið og atgeirsstafurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Bjarndýrið og atgeirsstafurinn

Eitt sinn um hávetur þá er hafís lá við land fyrir Tjörnesi nyrðra fór maður nokkur ferða sinna frá bæ þeim í Kelduhverfi sem Fjöll heitir; ætlaði hann þaðan vestur Tjörnesheiði. Á heiðinni var snjór mikill, en maðurinn gekk á skíðum og studdist við skíðastöng mikla og var það arngeir. Þegar maðurinn kom upp á heiðina kom að honum bjarndýr mikið og mjög ófriðlegt og fylgdist með honum nokkurn veg af heiðinni, en þorði ekki á hann að ráða, því það óttaðist arngeirinn. Þá er sókti vestur á heiðina yfirgaf dýrið manninn sem fór leið sína, og er hann átti skammt til bæjar mætir hann manni sem líka gekk á skíðum og hafði óvaldan staf og ætlar þessi austur yfir heiðina. Maðurinn sem af heiðinni kom dylur ekki hvor vogestur sé á heiðinni og biður hinn hverfi aftur með sér. Hann vill það víst ekki og kveðst hvorgi hræddur, en mælir þó til hann skipti stöfum við sig og ljái sér arngeirinn; hinn sá að skammt var til bæjar og skipti stöfum. Maðurinn sem arngeirinn fékk sókti nú á heiðina, en sem hann kemur þar sér hann dýrið sem sækir til hans og kemur svo nærri að það nasar af arngeirnum og í einni svipan hleypur til baka á leið eftir hinum manninum með svo miklum hraða að það nær honum við túngarðinn á bænum sem hann hélt að, og banaði þar og át sem lysti.