Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Brúnklukkan
Brúnklukkan
Þá er brúnklukkan. Hún er allt að því þumlungur á lengd, svört á lit með hvítan díl að aftan og lifir í vatni; hún er svo eitruð að hverri skepnu sem gleypir hana að óvörum ofan í sig er vís bani búinn því hún smýgur í gegnum innyflin þangað til hún læsir sig inn í lifrina og hættir ekki fyrr en hún hefur étið hana upp enda deyja þá menn og málleysingjar þegar svo er komið ef henni verður ekki ælt upp áður. Ekki þurfa menn að hugga sig með því að hún drepist af hitanum niðrí manni því sagt er að hún þoli þrjár grasagrautarsuður. Það er brúnklukkunni til málbóta að aldrei á annað illyrmi að haldast við í því vatni sem hún er í.
Líks eðlis er vatnskötturinn og smokkormurinn eftir almennings sögn, að þeir leitast við að komast ofan í mann ef maður drekkur úr því vatni sem þeir eru í.