Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Flær og hákarl

„Það má reiða sig á það, það verður nógur hákall ef einhvern tíma gæfi að róa,“ sagði Sveinn gamli Magnússon á Barði í vetur í ógæftunum þegar verið var að tala um að ljótt væri ekki gæfi að róa. „Hvað hefirðu til marks um það?“ spurði ég. „Það bregzt aldrei þegar flóagangurinn er svona mikill,“ sagði Sveinn. Eftir þetta varð almennt róið oftar en eitt sinn og varð hákallsaflinn mikill og almennur. – Nú fyrir skömmu varð hér tilrætt um hákallsaflann. Þorgerður gamla í Barðsgerði var hér stödd, gefur orð í og segir: „Já, þó undarlegt sé, þá mun það varla bregðast að þegar flærnar eru miklar þá er nógur hákarlinn.“