Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hellar
Hellar
Víða eru stórir hellar hér á landi og eru sögur til um það að þeir sé miklu stærri en menn viti nú til eða hafi kannað.
Einn er í Síðuhól hjá Breiðabólstað í Vesturhópi og er sagt að hellirinn sé svo langur að hann nái út á Vatnsnestá. Sagt er að maður nokkur sem var eltur af óvin sínum hafi flúið inn í hellinn og komið út úr honum aftur á fyrrnefndum stað.
Viðlíka saga er um helli einn á Hellum á Landi og er nú hafður bæði fyrir fjós og heygarð, og sé það hvort tveggja afhellar í hellismynninu enda er auðséð að hlaðið er fyrir stórt hellismynni þar sem heygarðshellirinn byrjar; sagt er að þessi hellir liggi vestan undir öllu Skarðsfjalli og út fyrir Þjórsá, og kunna menn þá sögu um að einu sinni hafi alikálfur sem gekk í heyhellinum á Hellum sloppið inn í aðalhellirinn. En fjósamaðurinn varð var við þetta og elti hann langa leið að því sem hann ímyndaði sér til útnorðurs þangað til hann heyrði ógurlegan vatnsnið yfir höfði sér. Þar skildi með kálfinum og honum því kálfurinn hélt áfram, en maðurinn þorði ekki lengra og sneri þar aftur og ætlaði að það mundi hafa verið Þjórsá eftir vegalengdinni sem hann hefði heyrt belja yfir höfði sér. En kálfurinn kom nokkru seinna fram á Stóranúpi í Eystrahrepp
Langstærstur allra hella á Íslandi er þó Surtshellir eftir því sem sögur hafa farið af og Eggert Ólafsson hefur getið þess að sér hefði mælzt hann 839 faðmar á lengd. Almenn sögn er það að annar endinn á honum sé á Langanesi norðast og austast á Íslandi. En dr. Maurer hefur heyrt að enn væru tveir armar aðrir á helli þessum og lægi annar þeirra út á Reykjanesi, útsuðurhorni landsins, en hinn norður og vestur á Horni, nyrzt á landinu.
Sagt er og að einu sinni hafi líflaus sakamaður forðað lífinu með því að flýja í Surtshelli undan fjandmönnum sínum sem eltu hann og hafi hann hlaupið jafnt og þétt nótt og nýtan dag og komið loksins fram austur á Langanesi; voru þá skór hans fullir af sandi, en þegar að var gætt var þetta gullsandur. Sagðist maðurinn lengi nokkuð hafa vaðið í þungum sandi upp fyrir ökla líkast eins og í ægisandi á sjávarströnd.