Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Helztu staðir náttúrusteina

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Helztu staðir náttúrusteina

Þrír staðir hafa verið orðlagðastir á Íslandi fyrir náttúrusteina. Fyrst er Drápuhlíðarfjall skammt fyrir sunnan Helgafell í Snæfellsnessýslu; þegar sólskin er leggur gullleitan ljómann af því og hvað mikið regn sem er þá sýnist ætíð sólskin á Drápuhlíðarfjalli. Sagt er að í fjallinu sé vatn eitt lítið en afar djúpt og að á því syndi alls konar náttúrusteinar á Jónsmessunótt. Er þar ekki aðeins óskasteinn, heldur og lausnarsteinn og hulinhjálmssteinn.

Annar staðurinn er Kofri; það er einstakur og hár fjallstindur upp úr öðrum lægri fjallgarði á Arnarnesi við Álftafjörð í Ísafjarðarsýslu. Þar skal safna náttúrusteinum, einkum á Jónsmessunótt, við tjörn þá sem er uppi á tindinum; þar er sagt að finnist bæði óskasteinar og aðrir fásénir hlutir, en nálega er þar öllum ófært upp að komast. Hella ein sem sumir segja að sé hol er í Kofra; hún getur af sér hvers konar náttúru á Jónsmessunótt. Sú hella heitir steinamóðir.

Aðrir segja að sams konar hella eigi að vera uppi í tjörninni á Baulu.

Þá er hinn þriðji staður; það er Tindastóll á Reykjaströnd í Skagafirði vestan megin fjarðarins. Í Tindastól austan- og norðanverðum í eða upp undan Glerhallavík skammt fyrir sunnan Bolabás[1] er brunnur luktur háum hömrum á alla vegu og gulllitað vatn í. Bæði í þeim brunni og umhverfis hann er sagt að séu alls konar náttúrusteinar og þar á meðal óskasteinninn. Allir náttúrusteinar sem þar í eru er sagt að komi upp á Jónsmessunótt og bregði þá á leik ofan á brunninum og í kringum hann, en þess á milli liggi þeir neðst á brunnbotninum. Bezt er því að sæta þessu lagi til að ná í steinana; en þó er svo örðugt að komast að brunni þessum að ekki verður þangað farið nema gandreið.

  1. Bolabás er sagt að hafi verið bústaður sjóskrímsla til forna.