Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hirundosteinar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hirundosteinar

A) Þeir eru oft þrír í einu og finnast í svölumaga; einn þeirra er rauður, annar svartur, þriðji hvítur. Hver sem hefur hinn rauða í munni sér og kyssir mey eina þá fær hún brennandi girnd til hans. Hver sem hefur hinn svarta verður aldrei á mat svikinn; en hver sem hefur hinn hvíta verður aldrei í hel sleginn.

B) Calcedonius; þessi steinn er lítill og ljótur. Hann hefur tvær tegundir: svartur og rauður; hann finnst í svölulifur eða maga. Hinn rauði er við tunglameinum, hann læknar vitstola menn og af langvarandi sóttum; hann gjörir mann og mælskan, þekkan og vinsælan. Hann á að vefjast í líni og bera hann á sér, og með sama hætti skal fara með hinn svarta. Hann stillir reiði höfðingja og framkvæmir sitt erindi og stendur á móti heitingum. Ef þessi steinn er borinn í líni sem rautt er í saumað eða ofið í uppistöðu þá er hann lækning við köldu og stillir vondan vessa.

C) Svölusteinn finnst líka í þeirra höfði; hann er og með purpuralit og margs konar í fleiri litum. Ef hann er látinn í lín eða kálfskinn og borinn undir vinstri hendi þá læknar hann gamlar sóttir; hann gjörir mann glaðan og þekkan. Hann dugir móti dýrum, reiði, helzt ef hann er svartur; þá á að taka hann í augusto og eru þeir tveir.