Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hjónin og loðsilungurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hjónin og loðsilungurinn

Einu sinni var kall og kelling á bæ saman hér á landi; þau höfðu lengi saman búið og ekki orðið barna auðið. Þar af reis ósamlyndi á milli þeirra og gaf karl kerlingu sinni það að sök að það væri henni að kenna; þess vegna át hann ætíð mat hennar mestallan frá henni svo hún gjörðist mögur og guggin, stúrandi og sorgfull.

Einu sinni bar svo við að karl fer að heiman, en kerling gengur að bæjarbaki, tekur að tala við sjálfa sig um raunir sínar, að hún geti ekki barn átt svo skaplyndi karls batni. Svo tekur hún að gráta sáran, en í því bili kemur til hennar kona ungleg og fögur ásýndum og segir: „Hvað er þér til hryggðar kerling mín?“ „Raunir mínar eru miklar,“ segir kerling, „óvinátta bónda míns sökum þess ég get honum eigi barn alið, og því má ég þá hefnd þola af hans hendi að hann etur allan minn mat á málum svo ég hefi ekki nema lítilfjörlega mola er ég fæ náð þegar hann veit ekki af. Hann er líka mesti mathákur.“ „Báglega ertú haldin,“ segir konan, „en eitt skal ég leggja til með þér: þú skalt ganga hér að læk einum í kvöld; sá lækur rennur skammt fyrir ofan kotið ykkar; þú munt sjá þar tvo silunga spretta fram og aftur. Mun annar vera loðinn, en annar sem vanalega. Þú skalt ekki hætta fyrr en þú hefur náð þessum silungum. Síðan skaltu sjóða þá og eta sjálf loðna silunginn og vita svo hvursu fer, en karli þínum skaltu gefa snoðna silunginn.“ Kerling þakkar hinni ókenndu konu og skilja þær síðan, en kerling gengur heim. Síðan fer hún til lækjarins er hin ókennda hafði vísað henni til. Hún verður strax vör við að þar eru tveir silungar og er annar loðinn. Síðan fer hún að leitast við að ná þeim og kemur þar um síðir að hún fær sigrað þá. Hún ber þá síðan heim að koti, setur upp pott og tekur að sjóða, en þegar hún hefur lokið soðningunni og ætlar að fara að matreiða kemur kall heim, sér silungana í pottinum og spyr hvar hún hafi fengið. Hún segir honum það. Kveðst hann hafa hér gott matarefni, en hún biður hann að snæða snoðna silunginn því hún ætli sjálf að hafa þann loðna, hann sé beztur handa sér því hann sé loðinn og óvanalegt kvikindi. Karl espast við og segist varla muni spyrja hana ráða um hvað hann eti, því það sé allt saman sitt. Hún biður hann að eta ekki loðna silunginn, en það tjáir ekki því hann þrífur pottinn þar sem hann stendur og hvomar í sig báða silungana hvað sem kerling sagði.

Nú líða fram stundir; þá fer smátt og smátt að koma í ljós undarlegur hlutur í kotinu, sá nefnilega að karl fer að gildna og verða óléttur og þar kemur loks að hann finnur hann er með fóstri. Honum bregður mjög kynlega við, en hefur þó fátt orða um. Loks kemur sá tími að hann skal fæða; tekur hann þá jóðsótt mikla, en getur ekki fætt. Gengur svo lengi að hann hefur þessar hörðu hríðar. Kerling hans stumrar yfir honum; verður hún þess vör að barnið tekur að síga niður í pung hans, en eigi gengur að heldur, en hríðar hans miklar. Sér hún hér er ekki í tveim höndum að hafa og tekur því það ráð að hún opnar pung hans og nær barninu. Síðan tekur karli að vægja smátt og smátt unz hann stígur alveg af sæng. Barnið sem hann átti var meybarn vænlegt og er sagt þau hafi látið heita Loðnu eður Loðínu, líklega dregið af náttúru silungsins. Er sagt karl hafi síðan bætt skaplyndi sitt við kerlingu og ekki svelt hana upp frá því eður brigzlað henni um ófrjóvsemi, en mey þessi ólst upp hjá þeim og varð hin mannvænlegasta og giftist efnuðum og efnilegum bónda, en karl og kerling unntust síðan til ellidaga og deyðu loks í þessu koti í góðri elli.