Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hrafnaþing

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hrafnaþing

Það [er] víst sumstaðar almenn meining að hrafnar haldi þing á haustin og skipti sér til veturvistar niður á bæina, pari sig og rífi í sundur staka hrafninn ef hann verður nokkur. Á Hörðuvöllum í Flókadalsafrétt í Fljótum sá ég[1] í ungdæmi mínu tvívegis eitthvert haustið 60-80 hrafna saman komna sem að litlum tíma liðnum flugu allir burt í ýmsar áttir, tveir og tveir eða fjórir og fjórir saman, en í engum hóp fleiri en fjórir. Hvort nokkur hrafninn varð stakur, man ég nú (1861) ekki með vissu enda þó mig minni að í annað skiptið væri stakur hrafn sem nokkrir hrafnar sóktu að, en forðaði sér það ég til sá.

Haustið 1861 sagði Sveinn Magnússon, fæddur hér um 1784, þannig frá: „Ég sá einu sinni hrafnaþing, ég var nefnilega einu sinni á ferð inn í Hofsós og sá ég snemma um morguninn fyrir fótaferðartíma á hólnum fyrir neðan Hof ógnafjölda af hröfnum sem voru þar með miklum ólátum og gargi. Ég gaf mig samt ekkert að þessu, heldur hélt ofan í Hofsós og lauk mér þar af. Þegar ég kom til baka um daginn voru hrafnarnir allir burtu. Gekk ég þá upp á hólinn að gamni mínu. Lá þar þá einn hrafninn dauður og allur sundurtættur. Sá ég þá, að þetta mundi hafa verið hrafnaþing og þetta verið staki hrafninn; því ég hafði heyrt það að á hrafnaþingum rifu hrafnarnir ævinlega í sundur þann hrafninn sem stakur verður þegar hinir allir eru búnir að para sig.“

  1. Jón Norðmann [hdr.].