Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hrafninn í Krýsuvík

Það er orðlagt hvað lítið sé um hrafna vetrarvertíðina í Garðinum, þvílíkur sægur sem þar sé af honum endrarnær, svo sem haust og vor, en sú er saga til þess:

Í fyrndinni var dæmafár hrafnagangur suðrí Garði svo hann reif allt og sleit, hvort sem var á görðum, hjöllum, króm eða byrgjum. Einn af bændum þar í Garðinum stefndi honum í burtu um vertíðina og austrí Krýsuvík. Síðan hefir þar varla sézt hrafn um vertíðina því síður hann hafi gjört skaða. En því stefndi hann honum í Krýsuvík að hann átti Krýsuvíkurbóndanum eitthvað illt upp að inna; gott ef hann hafði ekki stefnt hrafninum frá sér haust og vor suðrí Garð; beittust svo þannig brögðum með hrafninn líkt eins og Loðmundur gamli og Þrasi forðum með Fúlalæk eður Jökulsá á Sólheimasandi. – Það hafa vermenn sagt mér að þeir hafi oft mætt hröfnunum þremur og fjórum í hópum er þeir hafi farið suður á vetrinn.