Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hrossagaukurinn

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hrossagaukurinn

Það er trú manna að hrossagaukurinn geti ekki hneggjað eða fái ekki málið sem kallað er fyrr en hann er búinn að fá merarhildir að éta á vorin. Skal þá taka mark á því í hverri átt maður heyrir hann hneggja því það er fróðra manna sögn að hann spái um forlög manna eins og segir í vísunni:

„Heyló syngur sumarið inn,
semur forlög gaukurinn,
áður en vetrar úti er þraut
aldrei spóinn vellir graut.“

Má þannig marka hvað fyrir manni liggur af því hvar gaukurinn fyrst heyrist hneggja. Eftir því er farið hvar eða í hverri átt maður fyrst heyrir til hrossagauksins á vorin, og er:

„í austri ununar gaukur [aðrir: auðs gaukur],
í suðri sæls gaukur,
í vestri vesals gaukur,
í norðri náms gaukur.
Uppi er auðs gaukur [aðrir: ununar gaukur],
niðri er nágaukur.“

Brot úr vísum um hrossagaukinn:

„Í suðrinu ef söngfuglinn leikur
af sællífinu verðurðu keikur;
fullur muntu og feitur út ganga,
fjarlægist þá hallærið stranga.
Í útsuðri [aðrir: í nónstað] ef gaukurinn gólar
giftast þeir sem einsamlir róla,
en þeir giftu missa sinn maka
[munu sorg[1] fyrir gleðina taka.
---
Ef hann hefur náttmálanuldur
nálgast mun þá sorganna buldur,
máttu þig við mótlæti búa,
muntu verða þessu að trúa.
Í hánorðri ef hengir hann niður
hausinn, klærnar, vængi og fiður,
orgar svo í ofboði mesta
ekki mun þig spekina bresta.
---
Í skýjunum ef skellur hans hlátur
skaltu verða glaður og kátur,
auðurinn í gaupnir þér gengur,
gleðst þá hinn fátæki drengur.
Undan þér ef [aðrir: þá] umlandi [aðrir: ýlfrandi] gengur
ekki muntu lifa þá lengur;
drottinn mun þig draga til sinna,
dauðinn mun á flestöllum vinna.“
  1. Frá [ hafa aðrir: mæðu.