Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Hvítárskrímslið

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hvítárskrímslið

Skrímslið í Hvítá í Borgarfirði hefir sézt fyrir tíðindum. – Fáum dögum áður en amtmaður Steffán Stephensen á Hvítárvöllum lagðist banalegu sína sást ókennd skepna liggja nokkur kveld á Skiphól sem rétt er fyrir neðan túnið skammt frá ánni. Það sýndist grátt tilsýndar í tunglsljósinu og hringla í því eins og skeljum þegar það hreyfði sig. Það lá tímakorn í hvert sinn þar til það skreið í ána. Vinnumenn amtmanns vildu forvitnast um þetta og fara með byssur; en amtmaður bannaði þeim það og kvað slíkt óþarfa. Þetta var fyrirburður fyrir dauða hans.