Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Náttúrusögur/Jurtir og mjólkurmatur

Sami konungur var annaðhvort í sama eða öðru sinni á dularferð í fjallbyggðum í Noregi. Kom hann að tali við gamlan mann um atburði þá er fyrir löngu voru skeðir. Komu svo atburðir upp eftir að áraröðum skipti svo að gamli maðurinn mundi ekki. Sagðist hann vera áttræður, en hélt að faðir sinn mundi muna. Konungur undraðist að hann, svo gamall, skyldi eiga föður. En er karlinn kom fræddi hann konung á mörgu, en kom þó svo langt upp eftir öldum að hann sagðist ekki muna; faðir sinn kynni að muna það.

Afi hans kom og sagði honum marga atburði þá er hann mundi, en er hann þraut minni hélt hann að faðir sinn mundi kannske muna það.

Langafi karlsins kom og sagði margt og mikið án þess að getið sé um elliglöp.

Konungur undraðist mikið þenna ótrúlega aldur og spurði þá hvort þeir vissu nokkur rök til þess eður hvað þeir hefði haft til fæðu. Þeir sögðust alla sína ævi hafa lifað af mjólkurmat og jurtum, en öðru ekki, og aldrei meira en svo að þeir hafi hætt þegar lystin var sem mest.